Líkamsrækt á meðgöngu

Fyrirspurn:

Góðan daginn,

Nú er ég búin að vera að reyna að koma mér í form en komst svo að því að ég er ófrísk. Ég er hætt að borða nammi og hef verið að missa nokkur kíló vegna þess. Ég er að hlaupa 5x í viku og púlsinn hjá mér fer oft yfir 180.  Er mér óhætt að halda áfram eins og ég treysti mér að keyra mig vel út eða á ég að fara að hugsa um að lækka púlsinn. Púlsinn fer alltaf svona hátt þegar ég hleyp og ég er í vandræðum með að halda honum undir 170 þegar ég skokka en ég er að fara um 4 km á bretti á 30mín. (langar að ná 5km)

Aldur:29

Kyn:Kvenmaður

Svar:

Sæl,

Nú þekki ég ekki alveg nógu vel forsögu málsin, þ.e.a.s. hve lengi þessi þjálfun hefur staðið yfir hjá þér en út frá þeim upplýsingum sem ég hef, þá eru ráð eftirfarandi.

Svo lengi sem þér líður vel og þú hefur verið í þjálfun í töluverðan tíma áður en þú varðst ófrísk þá er þetta í góðu lagi. Púlsinn getur alveg farið yfir 180 í þolþjálfun og ætti það ekki að skaða þig nema ef þú hafir mælst mikið lægri áður en hún varðst ófrísk og að þú finnir fyrir einhverri vanlíðan á meðan æfingu stendur.  Mikilvægt er að stunda aðeins þá þjálfun sem maður hefur verið í áður við þessar aðstæður. Passa skal einnig að auka ekki of mikið álag nema aukning sé lítil í einu, og smám saman, og að vikomandi finni ekki fyrir neinni vanlíðan líkamlega.  Ráðlagt er að fara ekki útí neinar áætlanir um mikla þyngdarminnkun eða átaksmatarkúra á meðan meðgöngu stendur, hins vegar er það hið besta mál að sleppa sælgæti. Ef þér líður illa á æfingu við 170 slög/mínútu þá skalt þú draga úr álaginu, skipta úr hlaupabretti  yfir í t.d. hjól, þrekstiga eða eitthvað annað (skíðavél). Einnig er hægt að finna sér aðra þjálfun; jóga, body balance, body pump eða út að ganga, synda o.s.frv.

Með bestu kveðju,

Unnur Jónsdóttir, hjúkrunarfræðingur