Líður illa – hvað get ég gert?

Spurning:
Hjálp.
Ég veit ekki hvað ég á að gera. Þetta ár ætlar aldrei að enda, amma mín dó í sumar, við vorum rosalega nánar og svo er ég búin að halda tvisvar á þessu ári að ég sé ófrísk en svo kemur í ljós nokkru seinna að ég er það ekki þegar allar vonir hjá mér eru að verða ófrísk. Ég á barn sem er 21 mánaða og er búin að vera með fæðingarþunglyndi síðan hún fæddist. Svo fyrir stuttu framdi vinur minn sjálfsmorð og vinir mínir eru margir byrjaðir í rugli og ég veit ekkert hvað ég á að gera. Ég sef ekki, ég borða þegar ég man eftir því ég er að gefast upp. Sá eini sem ég tala við er maðurinn minn, hann reynir að styðja mig eins og hann getur. Hann segir að ég sé alltaf með áhyggjur og að ég sé þunglynd. Ég er hætt að vinna því ég þoldi ekki álagið að vinna þar. Er heima eins og er. Hvað get ég gert.

Svar:
Sæl.

Það er ekki gott að heyra hvað þér er búið að líða illa lengi. Talið er að allt að 70% kvenna finni fyrir depurð fyrstu 10 dagana eftir fæðingu en sú depurð jafnar sig á tiltölulega stuttum tíma. Þegar mikil depurð heldur áfram í eins langan tíma og hjá þér þá verður að leita aðstoðar sérfræðinga. Þú hefur einnig lent í endurteknum áföllum sem þú tekur greinilega nærri þér og kannski meira þar sem þú ert döpur fyrir. Ég mæli með að þú talir við sálfræðing eða geðlækni. Einnig getur þú leitað til göngudeildar geðdeilda Landsspítalans við Hringbraut. Þú getur líka haft samband við félagsmálaskrifstofu þar sem þú býrð og athugað hvaða aðstoð þú getur fengið þar, til dæmis aðstoð með barnið þitt ef þú átt erfitt með að sinna því.

Gangi þér vel.

Brynjar Emilsson
Sálfræðingur