Líður illa innan um fólk, hvað er að mér?

Spurning:

Ég veit ekki alveg hvernig ég á að byrja,en mér þætti vænt um ef þið vitið hvað þetta er,að þið annaðhvort senduð mér svar eða settuð þetta inná síðuna ykkar. Málið er að mér líður best einni…helst inni í herbegi með dregið fyrir gluggan,þá er ábyggilega enginn fylgjast með mér og meta mig. Það var erfitt fyrir mig að vera í skólanum í vetur. Langar hlest ekki að mæta þegar hann byrjar aftur,en ef ég geri það ekki verð ég bara inní herbegi. Mér fannst oft eins og krakkarnir væru að fylgjast með mér og meta mig eða hugsa hvað ég væri skrýtin. Ef einhver sagði t.d. hæ við mig þá fraus ég,vissi ekki hvað ég átti að segja,var hrædd um að viðkomandi sæi hvað mér leið illa. Tókst að stama hæ,ég varð þurr í munninum og hálsinum.

Þegar kennarar tóku upp leið mér illa,var hrædd um að roðna,stama,eða gera eitthvað sem yrði til þess að allir færu að hlæja að mér,eða hugsa hvað ég væri skrýtin,eða ég segði eitthvað vitlaust (þó ég vissi að það væru litlar sem engar líkur á að ég gerði eitthvað af ofantöldu), mér var kalt og stundum óglatt.

Stundum treysti ég mér ekki til að spyrja kennarana ef ég skildi ekki eitthvað..ég var hrædd um að ég yrði áltin heimsk. Matarhléin voru 30mín, ég reyndi stundum að vera helminginn af hléinu inni á bókasafni svo að ég þyrfti ekki að fara í matsalinn, mér fannst svo oft eins og einhverjir eða allur salurinn væri að fyglast með mér og hugsa hvað ég væri skrýtin (ég veit að það er ekki fræðilegur möguleiki á þessu þ.e. að allur salurinn sé að fylgjast með mér). Ég sat alltaf þar sem ég gat látið lítið fara fyrir mér, mér var stundum óglatt, þurr í munni og hálsi, maginn og hálsinn í hnút. Einn daginn voru þessi einkenni ásamt tilfinningunni um að væri verið að fylgjast með mér. Næsta dag gátu þau verið vægari og færri,og þarnæsta dag gat bara tilfinningin um að verið væri að horfa á mig verið. ath.þetta á við allar aðstæður sem ég lýsi.

Ef einhver kennari fór að útskýra hópverkefni fór mig strax að kvíð fyrir öllu í sambandi við það, kvíðinn hætti ekki fyrr en viðkomandi hópverkefni var búið. Ef ég mögulega gat sleppti ég hópverkefnum þóttist verða veik. Ef ég gat það ekki þá komu öll einkennnin sem ég hef lýst ásamt því að ég varð kaldsveitt, tungan varð of stór. Ég varð lengi að tala og hugsa. Fannst eins og tungan og heilinn hlýddu mér ekki. Mér fannst eins og allir í hópnum væru að horfa á mig og hugsa hvað það litla sem ég sagði væri vitlaust (ég sagði aldrei neitt nema ég neyddist til þess)og hvað ég væri skrýtin.

Ég sat alltaf ein,ef eihver settist hjá mér í tíma eða matsalnum, þá urðu einkennin sem ég hef lýst sterkari eða komu ef þau voru ekki til staðar(sem var frekar sjaldgæft).

Það var misjafn hvað þau voru mörg, en oftast voru einhver þeirra.

Almennt líður mér illa þar sem er mikið af fólki. Mér finnst eriftt að fara í fjölskylduboð þar sem eru aðrir en allra nánustu ættingjar, mér finnst eins og aðrir séu að horfa á mig. Það er orðið erfitt að fara í kringluna útaf þessu og að labba um á Laugaveginum, finnst oft eins og verið sé að fygjast með mér,verð öll stíf og líður hálf illa.

Hvað er að mér? Vonandi getið þið svarað mér.

Svar:
Einkennin sem þú lýsir eru mjög dæmigerð fyrir félagsfælni. Hún lýsir sér

einmitt í því að fólk vill forðast að vera innan um aðra af því að því finnst

eins og allir séu að horfa á sig og óttast mjög að gera sig að fífli með því að

segja eða gera eitthvað asnalegt. Hjá sumum er ástandið svo alvarlegt að þeir

svitna, stama og fara alveg í flækju. Þegar þetta er komið á það stig að fólk

getur ekki lengur sinnt einföldustu verkefnum, eins og vinnu sinni eða skóla,

er mál að taka eitthvað til bragðs.

Sem betur fer er tiltölulega einfalt að vinna bug á fælni. Best er að gera

það í samráði við sálfræðing. Ég mæli með hugrænni atferlismeðferð sem felst í

því að farið er nákvæmlega yfir hugarfarið sem kemur fram í þessari fælni. Eru

hugsanirnar rökréttar? Hvað er það versta sem komið gæti fyrir? Þú virðist gera

þér grein fyrir því (eins og flestir með fælni) að þessar hugsanir eru

órökréttar en þú ræður ekki við það. Þú þarft að læra að tileinka þér nýjan

hugsunarhátt. Svo er hinn hluti meðferðarinnar sem felst í því að framkvæma

ákveðnar æfingar. Þær felast í því að takast á við þær aðstæður sem þér finnast

svo erfiðar. Stundum stekkur fólk beint út í djúpu laugina og tekst á við það

hræðilegasta sem það getur ímyndað sér en yfirleitt er farin mildari leið sem

felst í því að takast á við auðveld verkefni fyrst og stigþyngja þau eftir því

sem líður á meðferðina. Aðalatriðið er að takast á við aðstæðurnar en flýja þær

ekki. Þegar þú gerir það finnurðu vissulega fyrir ótta og óþægindum en ef þú

lætur þig hafa það nógu lengi kemur að því að óttinn og óþægindin hverfa. Þá

lærir þú að þú þarft ekki að flýja þessar aðstæður (koma þér út í horn) til að

líða vel.

Svona meðferð þarf ekki að taka langan tíma og árangurinn er nokkuð tryggður.

Þar sem ástandið er svona slæmt er óhætt að fullyrða að slíkt margborgar sig.

Gangi þér allt í haginn.

Reynir Harðarson

sálfræðingur

S: 562-8565