Ein áhyggjufull spyr: Lítill kynlífsáhugi eiginmanns á meðgöngu?

Spurning:

Heil og sæl!

Ég er með eina spurningu sem mér liggur á hjarta. Ég er ólétt og komin rúma fimm mánuði á leið og allt gengur rosalega vel. Maðurinn minn var himin lifandi þegar hann vissi að ég var ólétt, hann var tilbúinn á undan mér að eignast barn og bíður spenntur eftir litla krílinu 🙂

En það sem er að angra mig er það að maðurinn minn hefur mjög lítinn áhuga á kynlífi og snertingum eftir að ég varð ólétt en mér finnst ég þurfa miklu meira á þessu að halda núna heldur en áður en ég varð ólétt. Ég er ekki búin að þyngjast mikið (5 kg) og lít ágætlega út.

Mig langar að vita hvert fer kynlífslönguninn hans og af hverju sýnir hann mér svona lítinn áhuga. Er þetta eðlilegt? Mér finnst þetta pínulítil höfnun 🙁  Með fyrirfram þökk.

Ein áhyggjufull.

Svar:

Það getur margt bögglast í mannlegum samskiptum við það að eignast barn. Besta leiðin til að finna út úr því hvað er að gerast er að ræða málin. E.t.v. er hann bara feiminn við líkama þinn núna þegar hann tekur svona örum breytingum.

Líka getur verið verið að hann sé hræddur um að meiða þig eða skemma eitthvað í sambandi við meðgönguna þegar hann kelar við þig.

Mörgum karlmönnum líður líka illa við það mikla návígi sem þeir hafa við fóstrið meðan á samförum stendur og finnst sem limurinn sé alveg við barnið og rekist jafnvel í það (sem er óþarfa hræðsla en mjög óþægileg tilfinning). Svo getur verið að hann eigi eitthvað óuppgert í sálinni sem hann þarf að ganga frá áður en hann getur tengst þér í þessu nýja hlutverki.

Hvað sem öllu líður skaltu ræða þetta við hann – hvernig þér líður þegar hann heldur sér svona til baka og hvernig þú myndir vilja hafa ykkar samskipti.

Vona að þetta gangi allt saman vel hjá ykkur.

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir