Litlar geirvörtur og brjóstagjöf

Spurning:

Ég er 22 ára og hef miklar áhyggjur af geirvörtunum mínum. Þær eru litlar eins og á karlmanni. Er eitthvað hægt að gera í þessu með lyfjum? Hefur þetta áhrif á brjóstagjöf þegar þar að kemur?

Takk fyrir góða síðu.
Ein með áhyggjur.

Svar:

Geirvörtur eru með alls konar lögun og þótt þær séu litlar er mjög ólíklegt að það hafi neikvæð áhrif á brjóstagjöfina þegar þar að kemur. Gangarnir sem liggja út úr geirvörtunum eru nefnilega svo fíngerðir að stærð geirvörtunnar hefur ekkert að segja. Geirvörturnar breytast líka á meðgöngu og verða dekkri, mýkri og teygjanlegri. Engin lyf geta breytt geirvörtunum og aðgerðir skemma viðkvæman taugavef brjóstanna og eru líklegar til að skemma þannig fyrir brjóstagjöfinni. Vertu bara glöð með þínar geirvörtur en ef þú hefur ennþá áhyggjur af þeim þegar þú eignast barn skaltu bera það undir ljósmóðurina þína í mæðraskoðun.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir