Loft í ristli?

Spurningin:
Hæ, mikið væri gott ef einhver gæti sent mér uppl. um hvaða matvæli á að forðast til að koma í veg fyrir loft í ristli. Þetta vandamál er alveg að gera mig vitlausa, mér finnst ég blása út bókstaflega af öllu sem ég læt ofan í mig, bara mismikið. Ég nota mikið tyggjó, er það loftmyndandi?
Ein 18 ára.

Svar:
Sæl.

Ég myndi ráðleggja þér að prófa að stoppa tyggjónotkunina þar sem tyggjó inniheldur sorbitól sem er hægðalyf og getur valdið óþægindum jafnvel þó það sé ekki í miklu magni í tyggjó. Einnig getur mikið trefjaríkt fæði s.s. grænmeti og gróft brauð með miklu geri valdið loftmyndun. Þú getur einnig rætt við matvælafræðing á stofu sem gæti aðstoðað þig frekar og farið yfir mataræðið hjá þér.

Með bestu kveðju,

Sigurbjörn Birgisson, sérfræðingur í meltingarsjúkdómum