Spurning:
Hæ, mig langar til að fá að vita hvort það tekur einhvern tíma fyrir Lóritín að virka á 6 ára gamlan son minn sem er með gróðurofnæmi og á að taka hálfa töflu af 10 mg töflum á dag þegar hann fær ofnæmi. Er virknin samstundis eða tekur það einhvern tíma að virka? Ef svo er hve lengi þá? Hann er líka að taka Minirin 0,2 mg, 1 töflu á dag fyrir svefn til að hjálpa honum að hætta að væta rúmið á næturnar. Tekur það líka tíma að virka? Hann fékk töflu í gær og bleytti rúmið í nótt. Við reynum að fara vel eftir leiðbeiningum á lyfinu og því sem læknirinn sagði, en ég gleymdi að spyrja hann um þetta og það er langt í næsta símatíma. Og svo að lokum: hafa þessi lyf áhrif á hvort annað og draga úr virkninni eða er í lagi að taka þau samtímis? Með von um svar sem fyrst.
Svar:
Lóratadín sem er virka efnið í Clarityn, Lórín og Lóritín, virkar mjög fljótt. Áhrif lyfsins koma fram u.þ.b. 1 klst. eftir inntöku og ná hámarki á 8 klst. Verkun Minirins á að koma nokkuð fljótt fram. Þó er mælt með því að taka lyfið í a.m.k. viku áður en ákveðið er með áframhaldandi notkun. Einnig er ekki víst að það komi alveg í veg fyrir að viðkomandi væti rúmið þó að það dragi úr því. Taka þessara tveggja lyfja á ekki að hafa áhrif á hvort annað.
Finnbogi Rútur Hálfdanarson
lyfjafræðingur