Lúsasjampó á meðgöngu

Spurning:

Góðan dag.

Fyrirspurn mín er varðandi notkun á lúsasjampói á meðgöngu.

Í haust fannst lús í höfði barnsins á heimilinu.
Það var rokið út í apótek og keypt túpa af Prioderm lúsasjampói.
Í ofboði var sjampói skellt í barnið og við foreldrarnir settum líka í
okkur, svona til öryggis, enda gátum við ekki séð skaðann í því.
En ég var á þeim tíma gengin 7 mánuði og gat ekki séð í íslensku
leiðbeiningunm neitt sem bannaði mér að nota sjampóið.

Nú eftir að skólinn byrjaði hefur komið upp lús í bekknum hjá barninu og heim var sendur „lúsamiði”. Í honum les ég að þungaðar konur eigi ekki að nota lúsasjampó nema brýna nauðsyn beri til. Nú er ég alveg að fara að eiga barnið og á þeim tíma í meðgöngunni þar sem alls kyns hugsanir um hvort barnið verði heilbrigt eiga huga minn allan og þá er þetta lúsasjampó að trufla mig mikið.

Af hverju eiga þungaðar konur ekki að nota lúsasjampó?

Með kveðju,
áhyggjufullur lúsasjampónotandi.

Svar:

Sæl.

Venjulega er það þannig með lyf að ekki er vitað um áhrif þess á fóstur hjá barnshafandi konum. Kemur það til af því að ekki hefur þótt siðferðislega rétt að prófa lyf á þessum hópi vegna þess að fóstrin geta beðið skaða af. Því verður oft reynslan að skera úr um hvort lyf séu skaðleg fóstrum hjá barnshafandi konum. Þar sem að lyfin geta verið skaðleg er ekki mælt með notkun þeirra fyrr en búið er að sanna að þau séu skaðlaus.
Vonandi gengur fæðingin vel.

Kveðja,
Jón Pétur Einarsson, lyfjafræðingur