Lyf án lyfseðils við bakflæði?

Spurning:
Ég hef í samráði við hana mömmu mína tekið inn lyfið Nexium til að sporna við husanlegu bakflæði. Ég er nú búinn að taka 15 töflur af þessu og ég fann gríðarlega jákvæðan mun strax frá degi eitt. Öndunin virkaði eins og hún væri hreinni og ég er hættur að hósta og kúgast eins og ég geri gjarnan.. Nú er spurning mín eftirfarandi: Er eitthvað lyf sem ég get keypt án lyfseðils út úr apóteki sem á að hafa svipaða verkun. Ég hef aldrei leitað til læknis með þetta hugsanlega bakflæði en eitt er víst að mér líður mun betur þegar ég var á þessum kúr.

Svar:
Nexium eða esómeprazól, eins og virka efnið heitir, er úr flokki svokallaðra prótónpumpuhemla. Þ.e.a.s. lyf sem draga úr framleiðslu magasýru. Ekki er hægt að kaupa lyf úr þessum flokki án lyfseðils. Hins vegar fást lyf úr flokki svokallaðra histamín2-viðtakablokkara í takmörkuðu magni án lyfseðils. Þetta eru lyf sem einnig draga úr myndun magasýru, en á annan hátt og þau eru ekki eins virk. Þetta eru lyfin ranitidín (Asýran, Ranex og Zantac) og famótidín (Famex). Ég mæli hins vegar eindregið með að þú talir við lækni um þetta. Full ástæða er til að fá sjúkdómsgreiningu til að hægt sé að miða meðferð við hana. Eitthvað annað gæti einnig valdið þeim sjúkdómseinkennum sem þú lýsir, sem gæti kallað á aðra meðferð.

Finnbogi Rútur Hálfdanarson lyfjafræðingur