Lyf fyrir frænda í útlöndum?

Spurning:
Góðan dag.
Er einhver leið til að fá lyf sem er hér á landi ókeypis og senda til frænda míns erlendis? Þetta er lyf v/vaxtarhormónaskorts. Lyfið er svo svakalega dýrt þar sem hann býr og því mjög erfitt að kaupa það þangað til hann þarfnast þess ekki meir. Hér á landi myndi þó sjúkratryggður einstaklingur fá lyfið ókeypis. Vinsamlegast sendið svar sem allra allra fyrst. Endilega einhverja lausn, bara eitthvað sem hægt er að vinna útfrá til að hjálpa þessum aumingja dreng. Hann er núna tæplega tveggja ára og þarf um það bil 0,5 mg (stungulyf) á dag af Genotonorm. Þetta er alveg ofboðslega dýrt þar sem hann býr og þar er ekki nein tryggingastofnun sem tekur þátt í lyfjakostnaði eða gefur lyfið. Ef þú átt ekki peninga t.d. fyrir hjartatöflum, þá færðu þær ekki… sorry. Ég vona innilega að ég fái einhver svör núna, með kærri kveðju og þakklæti,

Svar:

Þeir sem eru búsettir hér á landi og hafa átt hér lögheimili undanfarna sex mánuði eru sjúkratryggðir. Hægt er að víkja frá lögheimilisskilyrði í ákveðnum tilvikum. Aðeins er hægt að vera sjúkratryggður samkvæmt almannatryggingakerfi eins lands í senn.
 
Þetta kemur af heimasíðu Tryggingastofnunar ríkisins.
 
Eina sem ég get ráðlagt þér er að leita til Tryggingastofnunar ríkisins, sjúkratryggingadeildar um úrlausn. Hvort þú getur átt von á jákvæðum úrskurði þaðan get ég ekki svarað þér um, en það er vitaskuld undir aðstæðum ykkar komið. Ef hann er að einhverju leyti íslenskur er kannski einhver möguleiki. Einnig er þá kannski ástæða til að íhuga hvort foreldrar hans geti sest að hér á landi og hlotið þannig rétt til sjúkratrygginga. Líklega er það eini raunhæfi möguleikinn til að njóta þjónustu Tryggingastofnunar.
 

Finnbogi Rútur Hálfdanarson

lyfjafræðingur