Lyf til að stöðva myndun skalla?

Spurning:
Ég er ungur karlmaður á þrítugsaldri og hef áhyggjur af því að ég eigi eftir að verða sköllóttur. Ég hef nú þegar tekið eftir því að hárið mitt er aðeins byrjað að þynnast. Nú veit ég að til eru tvö lyf, Propecia og Minoxidil sem geta hjálpað til. Hvað kosta þessi lyf? Þarf ,,sjúklingur“ að greiða fullan hlut? Eru lyfin alveg hættulaus? Og síðast en ekki síst, virka þau?

Svar:

Það er rétt hjá þér að um þessi tvö lyf er að ræða til að stöðva myndun skalla.
Mínoxídíl er til sem lyf til að bera í hársvörð og heitir Regaine (erlendis fæst það sums staðar undir nafninu Rogaine) Þetta lyf fæst án lyfseðils og aukaverkanir eru almennt litlar og staðbundnar. Opinbert verð er samkvæmt lyfjaverðskrá í janúar 2004, 3.909 kr. fyrir 60 ml glas sem á að duga í a.m.k. mánuð. Verðið gæti verið lægra í einstöku apótekum.
Hitt lyfið er Propecia. Það er tekið inn og verkar á karlhormóna. Það fæst eingöngu gegn lyfseðli. Aukaverkanir eru sjaldgæfar og tengjast helst kynlífi. Lyfið getur því vart talist hættulegt. 28 töflur kosta samkvæmt lyfjaverðskrá í janúar 2004, 6.026 kr. og 98 stk. kosta 18.344 kr. Verðið gæti verið lægra í einstöku apótekum. Ein tafla er tekin daglega.
Tryggingastofnun tekur ekki þátt í greiðlu þessara lyfja.
Þessi lyf væru ekki á markaði ef þau hefðu ekki áhrif á alla vega einhverja. Þó er verkun einstaklingsbundin og því ekki hægt að fullyrða að þau gagnist þér.
Nánari upplýsingar getur þú fengið á Doktor.is á eftirfarandi slóðum:
 
http://www.doktor.is/lyf/lyf.asp?id=3587&firstletter=R&framl=&lysing=&number=&innih=&leit=
http://www.doktor.is/lyf/lyf.asp?id=3566&firstletter=P&framl=&lysing=&number=&innih=&leit=
 
Finnbogi Rútur Hálfdanarson

lyfjafræðingur