Spurning:
Góðan daginn!!
Ég er að leita mér upplýsinga vegna lítils frænda míns sem býr í fjarlægu landi. Hann skortir þetta vaxtarhormón sem allir venjulegir eiga að hafa. Hann er á stungulyfjum x1 á dag 5,3 mg * 1,5. Lyfið heitir Genotonorm. En málið er að þar sem hann býr er ekki tryggingarstofnun sem tekur þátt í lyfjakostnaði. Raunvirði þessara lyfja (mánaðarskammtur) hér á landi er um 280.000,- mánaðarskammtur taktu eftir! Eru lyfin sem eru hérna á landi ódýrari? Eru þetta samheitalyf? Er hægt að kaupa lyfin ódýrari hér og senda út? Geturðu gefið mér allar þær upplýsingar sem þú hefur? Með kærri kveðju,
Svar:
Á Íslandi fæst þetta lyf undir nöfnunum Genotropin, Humatrope, Norditropin Simplexx, Saizen og Saizen Click Easy. Genotropin er frá sama framleiðanda og Genotonorm.
Nú kemur ekki fram hvað drengurinn notar mikið af lyfinu, en varla notar hann 5,3 mg x 1,5 á dag. 5 mg hettuglas af Genotropin kostar hér samkvæmt verðskrá 25.925 kr. Væntanlega fær sjúkrahúsið lyfið þó eitthvað ódýrara þar sem það er væntanlega selt eftir útboð.
Þar sem það er svokallað S-merkt lyf eða sjúkrahúsmerkt fæst það eingöngu á Landspítalanum, Háskólasjúkrahúsi. Þar er lyfið eingöngu afhent þeim sem eru í meðferð á spítalanum. Hér á landi fengi sjúkratryggður sjúklingur þó lyfið væntanlega ókeypis.
Ef þú óskar nánari útskýringa, hafðu þá samband aftur, en gefðu mér þá upp hversu stóran skammt hann notar. Mér finnst þessi kostnaður hljóma frekar ótrúlega hár.
Finnbogi Rútur Hálfdanarson, lyfjafræðingur