Lyf við geðklofa og þyngdaraukning?

Spurning:
Ég var greindur með geðklofa fyrir 5 árum síðan og hef verið á lyfjameðferð sem mér líður vel á en vandamálið er að ég hef þyngst um 27 kg. síðan ég byrjaði á lyfinu. Nú var ég að frétta að til væri lyf sem maður fitnaði ekki af. Mig langar að vita hvað þetta lyf heitir og hvort það sé jafn gott og lyfið sem ég er á. Það heitir Zyprexa

Svar:
Við val á lyfjameðferð við geðklofa þarf að taka tillit til ýmissa atriða sem snerta mismunandi vekun og aukaverkanir hjá hverjum sjúklingi fyrir sig. Lyf sem virkar vel hjá einum sjúklingi virkar illa á annan o.s.frv. Það er því útilokað að gefa lyfjunum einkunn og segja að eitt sé betra, jafngott eða verra en annað. 
Lyfið Zeldox sem notað er við geðklofa virðist ekki valda þyngdaraukningu í eins ríkum mæli og t.d. Zyprexa. Það er hins vegar alls ekki víst að það lyf henti þér. Þú skalt ráðfæra þig við lækninn (geðlækninn) þinn, því hann þekkir notkun lyfjanna mjög vel og þinn sjúkdóm og er sá eini sem getur ráðlagt þér af einhverju gagni.

Finnbogi Rútur Hálfdanarson
lyfjafræðingur