Lystarleysi á meðgöngu?

Spurning:
Góðann daginn, langaði að spyrja hvort það væri þekkt fyrirbæri að finna fyrir lystarleysi/finna ekki fyrir svengd á meðgöngu ? Er komin 17 vikur, og það líða heilu dagarnir án þess að ég borði neitt sem heitið getur. Ranka við mér að kvöldi dags og er þá kannski búin að borða eina brauðsneið um morguninn og eitthvað smá yfir daginn og er bara ekkert svöng. Var að hugsa um annarsvegar barnsins vegna að það sé að fá nóg og hinsvegar mín sjálfrar vegna. Er búin að léttast um rúmt kg síðan á fyrstu mælingu sem er svosem ekki mikið en var bara að spá. Tek það fram, að það er ekki vegna ógleði eða uppkasta sem þetta er, það hefur varla verið til staðar yfirhöfuð. Fyrirfram takk, og afsakið langlokuna kv

Svar:
Það er vel þekkt að konur missi alla löngun í mat í upphafi meðgöngu, jafnvel þótt þær finni ekki beinlínis fyrir ógleði. Yfirleitt rjátlast það af þeim fyrir 12. viku en einstaka kona heldur þó áfram að vera svona. Þar sem næring á meðgngu skiptir höfuðmáli fyrir heilsu og þroska fóstursins og heilbrigði móðurinnar er slæmt ef lystarleysið hindrar að kona borði holla og næringarríka fæðu yfir lengri tíma. Stundum getur svona tímabundið svelti orðið að vana, líkaminn sætt sig við þetta og maginn minnkað niður í hnetustærð þannig að ekki finnst hungurtilfinning. Til að snúa þessu við þarft þú að „pína“ þig til að borða á 2 – 3 tíma fresti yfir daginn og borða hollan og næringarríkan mat. Þú þarft a.m.k. 3 máltíðir með kjöti, fiski, eggjum eða mjólkurvöru, 5 brauðsneiðar eða korn í máltíð, 2-4 ávexti og ómælt af grænmeti á hverjum degi ásamt a.m.k. 1,8 l. af vatni eða öðrum ósætum vökva. Það er best að sleppa sætindum og gosi, það rænir lystinni frá næringarríkari mat. Ef þetta gengur ekki skaltu tala við ljósmóðurina þína og jafnvel fá næringarráðgjöf því með þessu áframhaldi stefnir þú bæði sjálfri þér og fóstrinu þínu í hættu.

Gangi þér vel.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir