Má ég taka fæðubótarefni á meðgöngu?

Spurning:

Er ráðlegt að taka fæðubótaefni (t.d.
Naten eða Herbalife) á meðan meðgöngu stendur? Ég fór í
lyfjaverslun til að kaupa mér fæðubótarefni og einnig þungunarpróf og afgreiðslustúlkan þar
hafði á orði við mig að ekki væri gott að taka fæðubótarefni
á meðgöngu. Það er enginn fylgiseðill með þessu og þar af
leiðandi ekkert sem segir að þetta sé óráðlegt fyrir þungaðar
konur. Reyndar þekki ég konu sem tók fæðubótarefni alla
meðgönguna og leið alveg ljómandi vel! Svo er það lýsið, má
maður virkilega ekki taka lýsi á meðgöngu? Hvaða vítamín er
best að taka? Maður er svo slappur og þungur svona þessar
fyrstu vikur (ég er komin 9-10 vikur á leið).
Kær kveðja

Svar:

Varðandi fyrirspurn þína um Naten og önnur fæðubótarefni á
meðgöngu vil ég ráðleggja þér að nota ekkert sem ekki er
vitað nákvæmlega hvað inniheldur. Því miður er mikill áróður
í gangi um efni sem ekki er nægilega mikið vitað um. Á
meðgöngu og sérstaklega fyrstu 3 mánuðina á að forðast allt
slíkt. En lýsi máttu taka (ef þér verður ekki flökurt af því!).
Fjölvítamín frá viðurkenndum framleiðanda er gott að taka, og
flestar konur þurfa að taka járn á meðgöngu. Þú skalt tala
við heimilislækninn þinn og hann fylgist þá með blóðinu.
Margar konur þurfa einnig fólínsýru á meðgöngu og þú skalt
einnig ræða það við hann. Aðalatriðið er að taka helst engin
lyf en hæfilegt magn af vítamínum og járni, borða hollan og
góðan mat (samt ekki of mikið!) og fá sér göngutúra reglulega.

Gangi þér vel

Vigfús Guðmundsson, lyfjafræðingur