Má ég taka Halcion áfram?

Spurning:
Ágæti doktor!
Ég ber þetta erindi upp í annað sinn þannig er að ég tek halcion (Asepin)sem er svefnlyf, þannig er að ég er mikið á ferð og sef í mörgum mismunandi rúmum og á erfitt með svefn, þess vegna tek í það inn þetta er ávanaabindandi og er ég löngu orðinn háður því en misnota það ekki ég neyti ekki áfengis eða lyfja.
Spurningin er hvort mér sé ekki óhætt að taka þetta lyf áfram eða mælið þið með einhverju öðru.
Með bestu kveðjum ,
PS: Ég þakka fyrir góða heimassíðu Doktorsins,sem er í alla staði til fyrirmyndar

Svar:
Tríazólam sem er virka efnið í Halcion og Triazolam NM Pharma (og Aspín sem er ekki lengur á markaði) getur verið ávanabindandi. Almennt er ekki mælt með að nota svefnlyf að staðaldri, vegna þessarar hættu á ávanabindingu. Einnig eru verulegar líkur á að við langvarandi notkun myndist þol fyrir lyfinu, þ.e.a.s. sífellt stærri skammta þurfi til að ná fram fullnægjandi verkun.

Ég get því ekki mælt með áframhaldandi stöðugri notkun þessa lyfs. Aftur á móti get ég ekki ráðlagt þér að hætta að nota lyfið, né bent þér á önnur betri lyf. Þetta verður þú að ræða við lækninn þinn sem þekkir þínar aðstæður og getur gefið þér ráð sem hann byggir á þeirri þekkingu.

Á heimasíðunni Doktor.is eru greinar um þetta efni og einnig bendi ég á kaflann um Halcion í Lyfjabókinni sem þú finnur á Doktor.is. Greinarnar eru: Benzodiazepin eftir Jóhannes Bergsveinsson yfirlækni (http://www.doktor.is/grein/efni/grein.asp?id_grein=1438&flokkur=6&spurn_nr=129&spurn_fl=Forvarnir%2C+%E1vani%2C+f%EDkn+og+misnotkun) og Ég sef svo illa eftir Bryndísi Benediktsdóttur lækni (http://www.doktor.is/grein/efni/grein.asp?id_grein=1460&flokkur=6&spurn_nr=291&spurn_fl=Svefn)

Finnbogi Rútur Hálfdanarson

lyfjafræðingur