Spurning:
Halló Mig langar að vita hvort það sé í lagi að taka inn Reductil 10 mg þegar ég er að taka nú þegar Zoloft 50 mg og Levaxin?
Svar:
Almennt er varað við að nota Reductil samhliða serótónín endurupptökuhemlum (SSRI lyfjum) þar sem það getur í einstaka tilfellum leitt til svokallaðs serótónín heilkennis, sem stafar af of mikilli uppsöfnun serótónínís í miðtaugakerfi.
Serótónín heilkenni er hættulegt ástand sem lýsir sér m.a. með ofurhita, stirðleika, vöðvarykkjakrampa, óstöðugleika ósjálfráða taugakerfisins hugsanlega samfara hröðum sveiflum á púls, blóðþrýstingi, öndun og líkamshita, breytingum á andlegu ástandi sem getur verið rugl, pirringur og mikil geðæsing sem getur þróast í óráð/æði og dá (coma).
Sertralín sem er virka efnið í Zoloft, er serótónín endurupptökuhemill (SSRI lyf).
Finnbogi Rútur Hálfdanarson
lyfjafræðingur