Spurning:
Ég er komin 3 mánuði á leið og er að taka Sotacor 80 mg við hjartsláttartruflunum. Hef tekið það inn í eitt og hálft ár. Getur það haft einhver áhrif á fóstrið? Þetta er þriðja barnið mitt og þetta er í fyrsta skipti sem ég finn fyrir miklum svima og höfuðverk á meðgöngu. Er það alveg eðlilegt?
Svar:
Sótalól, virka efnið í Sotacor fer yfir fylgju og finnst í legvatni ef það er tekið á meðgöngutíma. Það getur haft einhver óæskileg áhrif á fóstur án þess þó að hætta sé talin á að það valdi vansköpunum. Þess vegna skulu þungaðar konur einungis nota lyfið ef væntanlegt gagn vegur meira en hugsanleg hætta fyrir fóstur. Eftir fæðingu skal fylgjast vel með barninu í 2-3 sólarhringa ef ekki er hægt að stöðva meðferð móður með sótalóli 2-3 dögum fyrir fæðingardag.
Mikill svimi og höfuðverkur er náttúrulega ekki eðlilegt ástand hvort sem viðkomandi er þunguð eða ekki. Það getur þó verið fyllilega meinlaust, en þú ættir fyrir alla muni að ræða það við lækninn þinn ásamt því hvað hann telur heppilegast að gera vegna hjartsláttartruflananna sem þú nefnir. Hugsanlega gæti verið samband milli svimans og höfuðverkjarins og hjartsláttartruflananna.
Finnbogi Rútur Hálfdanarson
lyfjafræðingur