Má nota Canesten á meðgöngu?

Spurning:
Mig langar að fá smá upplýsingar. Ég var að komast að því að ég væri ófrísk og er komin fjórar vikur á leið. Fyrir 10 dögum notaði ég Canesten stíl 500 mg. Þegar ég las leiðbeiningarnar tók ég eftir því að ekki væri ráðlegt að nota hann á fyrstu mánuðum meðgöngu, en ég var ekkert að spá í það vegna þess að þetta var ekki planað og min grunaði ekki að ég gæti verið ófrísk. Hvaða áhrif getur þetta haft á fóstrið?

Svar:
Samkvæmt upplýsingum sem ég hef, þ.á m. fylgiseðli sem er í pakkningu lyfsins, er ekkert sem mælir gegn því að nota Canesten skeiðarstíla á meðgöngu.
Ekki er hins vegar mælt með notkun Canesten skeiðarkrems á meðgöngu en það er einungis vegna þess að það er notað með sérstakri stjöku sem í versta falli getur valdið skaða á fóstri ef hún er fer of langt inn.
Þú skalt því ekki hafa neinar áhyggjur af því að hafa notað Canesten eftir að þú varðst ófrísk.
 
Finnbogi Rútur Hálfdanarson

lyfjafræðingur