Má nota Panoxyl á meðgöngu?

Spurning:

Góðan dag.

Mér þætti vænt um ef ég gæti fengið svar við því hvort óhætt er að nota húðlyfið Panoxyl á meðgöngutíma. Eins þætti mér vænt um að fá að vita hvort óhætt er að taka lýsi og kalk á meðgöngu.

Takk.

Svar:

Það er ekki vitað hvort Panoxyl er öruggt á meðgöngutíma. Það hafa ekki komið fram skaðleg áhrif á fóstur en það er æskilegt að nota lyfið ekki á meðgöngutímanum. Þetta á í raun við um flest lyf, því að það má alltaf reikna með því að það sem móðirin tekur inn (eða ber á sig) fer alltaf að einhverju marki í fóstrið.

Lýsi er í lagi að taka á meðgöngu og í raun bara besta mál en það verður að passa að taka ekki of mikið og taka alls ekki A-vítamín með lýsinu. Ráðlagður dagskammtur er um 1000 retínóljafngildi (3330 a.e.). Kalk er líka nauðsynlegt fyrir konur á meðgöngu og er ráðlagður dagskammtur um 1200 mg.

Með kveðju,
Jón Pétur Einarsson, lyfjafræðingur