Má nota sterakrem á hormónabólur?

Spurning:

Ég á 1 mán. gamlan son sem er orðinn útsteyptur í hormónabólum, þetta byrjaði fyrir ca. 2 vikum og þá bara ein og ein bóla en svo fóru þær að fjölga sér og nú í dag er strákurinn þakinn bólum eiginlega ,,bóluteppi“ ef þú skilur hvað ég á við? Nú, svo sagði skólasystir mín mér frá því að til væri lyf sem getur lagfært þetta eða allavega minnkað bólurnar eitthvað, hún segist hafa góða reynslu af þessu lyfi: Hýdrókortisón frá Delta. Ég leitaði mér upplýsinga um lyfið á upplýsingavefnum ykkar og sá að þetta er steralyf. Ég hef oft séð svona bólur áður á börnum en ekki svona þéttsetnar.
Er í lagi fyrir mig að nota þetta krem á strákinn minn?  
Ef ekki hefur þú þá einhver önnur ráð?  

Svar:

Það er aldrei fyrsta val að nota sterakrem á svona lítil börn. Þótt þessar ,,hormónabólur“ séu ekki til prýði þá skaða þær húð barnsins ekkert og hverfa af sjálfu sér á 2-4 vikum. Besta ráðið er að þvo húð barnsins kvölds og morgna með volgu vatni og hreinu þvottastykki. Annað á ekki að þurfa nema bólurnar fari að vera graftarfylltar eða dreifist í augun. Einstöku sinnum getur þurft að nota zink krem á bólurnar séu þær mjög stórar. Það þurrkar þær upp. En annars bara þvottur og þolinmæði.

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir