Má taka Nobligan á meðgöngu?

Spurning:
Kæra ljósmóðir
Verð að fá svar sem fyrst. Ég er komin 5 vikur á leið. Hef verið að taka Nobligan vegna verk í mjöðm og vegna höfuðverkjar. Er það í lagi ?má ég taka það stundum? Það er voða lítið annað sem virkar. Kemur það til með að skaða barnið? Er það í lagi. Kveðja

Svar:
Það er ekki ráðlegt að taka Nobligan á meðgöngu þar sem það er sterkt verkjalyf og getur haft neikvæð áhrif á fóstrið. Í sérlyfjaskránni stendur: ,,Tramadol (efnisheitið á Nobligan) fer yfir fylgju. Þekking á öryggi við notkun tramadols handa þunguðum konum er takmörkuð og því eiga þungaðar konur ekki að nota Nobligan hylki.“ Sértu það slæm af verkjum að þú þurfir þetta sterkt verkjalyf ættir þú að ráðfæra þig við lækninn þinn því það hlýtur að finnast betri meðferð en að lifa á verkjatöflum. Og það er heldur ólíklegt að líðanin skáni þegar líður á meðgönguna. Hefurðu t.d. prófað að fara til sjúkraþjálfara, nuddara eða í nálastungur? Eitthvað slíkt gæti e.t.v. hjálpað þér betur en verkjatöflur, a.m.k. þegar til lengri tíma er litið.

Vona að þér batni sem fyrst og meðgangan verði þér ánægjuleg.

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir