Mæðraskoðanir Ísland – Svíþjóð?

Spurning:
Ég geng með þriðja barn mitt, komin í viku 13. Mig langaði að vita hver viðmiðin eru varðandi mæðraskoðanir á Íslandi en ég bý í Svíþjóð. Ég fór í fyrstu mæðraskoðunina í viku 12. Þá er bara skráð saga móður og tekið blóðpróf og þvagpróf. Næsta skoðun er ekki fyrr en 15. maí, þá verð ég komin 6 mánuði á leið. Svo fer ég í skoðun einu sinni í júní og einu sinni í júlí og svo eitthvað þéttar fram að fæðingu. Hér er ekki gerð hnakkaþykktarmæling en ég verð kölluð í 18. vikna sónar. Er eðlilegt að mæla hvorki legbotnshæð, hjartslátt barnsins né prótein og sykur hjá mér fyrr en ég er komin í viku 26? Þurfa konur færri mæðraskoðanir ef þær eru fjölbyrjur? Hvað telur þú að sé eðlilegt að koma oft í mæðraskoðun? Með fyrirfram þökk um svör,
Svar:
Þetta eru nú heldur færri skoðanir en boðið er upp á á Íslandi en hér er verið að ræða um að við skoðum heilbrigðar konur óþarflega oft og verið er að endurskoða mæðraverndina með tilliti til þess að fækka skoðunum. Þá yrði það gert í byrjun meðgöngu því flestir áhættuþættir gera vart við sig á síðari hluta meðgöngu. Séu konur í áhættu á t.d. meðgöngueitrun væri náttúrulega strangara og þéttara eftirlit. Hafi kona fætt áður og meðganga og fæðing gengið vel hefur maður í raun enga ástæðu að ætla annað en að svipað verði uppi á teningnum í næstu meðgöngu. Hvað mína skoðun varðar þá tel ég að talsverður hluti þess sem fram fer í mæðraskoðun fyrri hluta meðgöngu megi missa sín (þá á ég við hjá fullfrískum konum) en ég held samt að konur (og ljósmæður) myndu sakna þess ef skoðunum yrði fækkað vegna þeirrar öryggiskenndar sem fylgir því að hitta ljósmóður og geta spjallað um hitt og þetta sem maður er að velta fyrir sér á meðgöngunni.

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir