Marblettir

Ég fæ marbletti við minnsta tilefni. Oft veit ég ekki að ég hafi rekið mig í. Ég stunda íþróttir og er oft marin og blá (eða brún) eftir æfingar. Þetta hefur ekki verið svona nema síðasta hálfa árið. Hver getur verið skýringin á þessu ?
Með fyrirfram þökk fyrir svar.
Ein á sextugsaldri.

Sæl vertu og þakka þér fyrir fyrirspurnina.

Flestir marblettir eru skaðlausir og hverfa af sjálfu sér og lítið hægt að gera þegar mar er komið fram. Marblettir myndast þegar háræðar undir yfirborði húðar rofna og leka blóði út í vefina. Venjulega koma marblettir fram á útlimum eftir högg t.d. þegar rekist er í hluti.

Eldra fólk fær frekar marbletti en yngra, sérstaklega konur, vegna þess að húðin þynnist með árunum og eins minnkar húðfitan. Hvor tveggja veikir varnarhlutverk  húðarinnar fyrir mjúku vefina og hárðæðar undir húðinni.

Magnyl, aspirin, blóðþynnandi lyf og blóðflögulyf minnka storkueiginleika blóðsins og því blæðir lengur úr sárum og æðarofi en annars ef þau lyf eru tekin. Þá lekur meira blóð út í vefina og mar kemur frekar fram.  Lýsi er einnig blóðþynnandi og mar getur komið tíðar fram hjá  þeim sem taka það. Sterar, bæði í húðáburði og lyfjum geta valdið húðþynningu og gert húðina veikari og líklegri til að fá mar.

Tíðir marblettir geta verið vísbending um brenglun í blóðflögumyndun, sem er hluti af storkukerfi líkamans eða brenglunar í próteinum sem hjálpa til við blóðstorknun.

Þú ættir að leita til læknis ef þú færð marbletti óeðlilega oft, færða stóra marbletti og sérstaklega ef marblettir koma fram á búk, baki eða andliti án sérstakrar ástæðu, einnig ef marblettir fara skyndilega að koma fram án sérstakra ástæðna.

með kveðju,

Sigríður Ólafsdóttir

Hjúkrunarfræðingur