Matarkúr vegna Candida sýkingar

Spurning:

Góðan dag.

Ég er á ströngum matarkúr vegna Candida sýkingar og þar eru mjólkurvörur í algeru lágmarki. Ég hef áhyggjur af því að ég fái ekki nóg kalk því í fjölvítamíninu mínu eru bara 160 mg sem skv pakkningum er 20% af dagsþörf. Ég var að lesa hérna að kalk sé líka í spínati og grænkáli en ég borða lítið af því. Ætti ég að kaupa kalktöflur til viðbótar við fjölvítamínið og ef svo er, hversu mörg mg. ætti ég að taka af því?

Með fyrirfram þökkum.

Svar:

Sæl og blessuð.

Umræðan um Candida sýkingu var mjög hávær fyrir nokkrum árum og samkvæmt áhangendum „Candida-kenningarinnar” er Candidasveppa-sýking undirót allra hugsanlegra kvilla. Reyndar hafa aldrei komið fram haldbær rök fyrir þessari kenningu. Ef ég man rétt var fólk sem taldi sig vera með Candida-sveppasýkingu hvatt til að forðast margt og mikið ekki síst mat sem innihélt sykur og ger.

Ég trúi að þú viljir reyna þennan kúr til enda og ekki ætla ég að letja né hvetja þig í þeim efnunum. Ráðlagður dagskammtur af kalki á dag fyrir fullorðna er 800 mg. Eins og flestir vita er mjólk og mjólkurmatur sá fæðuflokkur sem hefur að geyma mest kalk. Sykursnauðar mjólkurvörur eru t.a.m. hreint skyr og ostar. Varðandi kalkgjafa í fæðubótarformi þá að sjálfsögu koma mörg vörumerki til greina. Í augnablikinu man ég eftir ágætri tegund sem er auglýst undir nafinu Heilsutvennan.

Kveðja,
Ólafur G. Sæmundsson, næringarfræðingur