Melatonin og pillan.

Hææ.
Ég er á pillunni diane mite. Ég á yfirleitt ekkert það erfitt með svefn en þegar ég gisti hjá kærastanum mínum þá næ ég varla að sofna og ef ég sofna þá er ég endalaust vaknandi yfir nóttina.

Systir mín á melatonin sem hún keypti í lausasölu í Bandaríkjunum og ég var að pæla í að prófa að nota það einu sinni eða tvisvar til að sjá hvort það myndi hjálpa mér að venjast að sofa betur hjá honum.

En svo las ég að það getur haft áhrif á virkni pillunnar svo ég veit ekki hvort það sé sniðugt að taka það.

Er eitthvað annað sem ég get gert í þessu svefnvandamáli eða ætti ég að prófa að taka melatonin?
Hvaða ráð hafið þið við svona svefnvandamáli. Ég er alltaf dauðþreytt eftir að hafa gist hjá honum.

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.

Í fljótu bragði finnast engar upplýsingar um að melatonin ætti að hafa áhrif á diane mite, þar sem melatonin er náttúrulegt efni sem líkaminn framleiðir sjálfur.

En ég myndi fyrst ráðleggja þér að leita lausna án lyfja. Þar sem það kemur ekki fram hversu gömul þú sért eða hversu lengi þið eruð búin að vera í sambandi þá ætla ég í byrjun að gefa mér ákveðin atriði.

Það er eðlilegt í nýju samböndum að sofa illa. Við höfum e.t.v. sofið ein alla okkar ævi fram að þessu og það tekur tíma að venjast því og hreinlega læra það að festa almennilega svefn með öðrum aðila.

Það getur líka verið streituvaldandi fyrir þig að leyna honum þessu og því er mikilvægt að ræða hlutina, en streita og stress hefur mjög mikil áhrif á svefninn okkar.

Á meðan þú ert að komast yfir það að ná ekki að sofna hjá honum gæti verið gott að „æfa sig“ þá daga sem þú ert t.d. í fríi, þ.e. gista frekar þegar þú ert í helgarfríi en ekki um miðja viku (eða öfugt ef þannig er).

Gangi þér vel.

með kveðju,

Lára Kristín Jónsdóttir

Hjúkrunarfræðingur.