Með hvítubólgu?

Spurning:
Mér var tilkynnt af tveimur augnlæknum að ég væri með hvítubólgu. Ég fékk ekki nákvæmari svör en það að þetta væri ónæmissvar sem ekki er vitað út af hverju kemur. Annar þeirra sagði mér að þetta kæmi næstum alltaf aftur ef maður hefði fengið þetta einu sinni en hinn læknirinn sagði að það kæmi sjaldnast aftur. Annar þeirra ráðlagði mér að fá mér ekki linsur fyrr en eftir ár en hinn sagði að það væri allt í lagi strax. Ég fékk einhverja steradropa sem löguðu þetta en þetta er komið aftur og þá í bæði augun (var fyrst bara í öðru). Mig langar að fá þriðja álitið á þessu öllu og vonandi einhverja betri skýringu á hvað þetta er. Báðir sögðu að þetta kæmi oft hjá gigtveikum og þeim sem eru undir miklu álagi. Ég er allavega ekki gigtveik en kannski pínu álag.
Með fyrirfram þökk.

Svar:
Komdu sæl.
Jæja, þessi er nokkuð snúin! 
Nú vil ég leggja áherslu á að ég hef ekki séð augun þín, þannig að ég get ekki gefið álit mitt með skoðun, heldur einungis sögu.  Af henni ræð ég að annað hvort sé um að ræða svokallaðan ,,episcleritis“, eða utanhvítubólgu, eða ,,scleritis“, eða hvítubólgu.  Það síðarnefnda er miklu alvarlegra og bendir nánast alltaf til gigtarsjúkdóms – en þarf nánast alltaf að meðhöndla með steratöflum. Því þykir mér langlíklegast að um sé að ræða utanhvítubólgu, eða ,,piscleritis“.  Slíkt er miklu saklausari sjúkdómur og sjaldnast tengdur gigtarsjúkdómum. Þessi sjúkdómur lætur vel undan sterum en getur komið aftur.  Þó er mjög óalgengt að hann komi upp í báðum augum og þykir mér ekki ólíklegt að hvarmabólga sé e-ð viðriðinn þetta hjá þér. Hvarmabólga er oftast bundin við (eins og nafnið bendir til) hvarmana en getur í einstaka tilfellum valdið roða á hvítu eða í slímhúðinni yfir hvítunni.
Því miður, ég held að þú losnir ekki við að sjá augnlækni enn einu sinni!
Bestu kveðjur og gangi þér vel,

Jóhannes Kári.