Meðferð við félagsfælni

Spurning:
Ég er 20 ára karlmaður og hef verið greindur með félagsfælni og í kjölfar hennar alvarlegt þunglyndi með sjálfsvígshugsunum. Ég hef verið í einhverskonar meðferð en ekki beint markvissri þó. Ég hef verið einstaklega óheppinn með lækna og kerfið þó sér í lagi geðlækna. Eitt dæmi er þar sem ég fór á geðdeild vegna sjálfsvígshugsanna en var sendur til áfengisráðgjafa….(Það skal koma fram að ég hef aldrei átt í vandræðum með áfengi og hætti neyslu þess reyndar vegna lyfjatöku) Þannig að ég hef misst trúnna á þessu blessaða færibandskerfi okkar.

Gallinn við geðlækna er það að þeir hafa meiri áhuga á að létta á einkennum heldur en á heildarbata og virkni einstaklings í samfélaginu. Ok í stuttu máli er fyrirspurn mín þessi: Ég þjáist af félagsfælni, ég hef náð einhverjum en þó takmörkuðum bata, við hefur bæst þunglyndi núna og er það að mestu leyti að völdum þess að ég get ekki fótað mig í samfélaginu, það er vegna þess að í gegnum tíðinna hef ég verið einangraður sökum sjúkdóms míns og hef ekki fengið þá þjálfun í mannlegum samskiptum eins og aðrir, mér finnst mjög erfitt að vera mörgum árum á eftir jafnöldrum mínum í reynslu og getu á þessu sviði og eins og ég sagði þá stafar þunglyndi mitt þá helst af þessu getuleysi mínu.

Það sem ég var að velta fyrir mér er það hvort að einhverskonar meðferð sé til við þessu, þá meina ég svona hálfgerð „félagsleg endurhæfing“??? Einnig hvort þið vitið um einhverja sálfræðinga sem sérhæfa sig í félagsfælni og meðferð á henni, ég er orðinn leiður á einungis lyfjum sem bæla einkennin en gera mér ekki beint kleift að notfæra mér það.

Með fyrirfram þökk

Svar:
Það eru til þrautreyndar leiðir til að losna við fælni og það er tiltölulega einfalt mál, en það er ekki þar með sagt að það sé auðvelt fyrir þann fælna. En með ákveðnum æfingum má gera þetta og það sama má segja um þunglyndið. Sálfræðingar kunna til verka í þessum málum og þeir grípa ekki til lyfja. Leitaðu þér endilega aðstoðar sem fyrst þar sem félagsfælni hefur svo víðtæk áhrif á líf þitt og ég tala nú ekki um þegar þunglyndi er komið til viðbótar. Það tekur á að panta tíma og fara í viðtöl en það er svo sannarlega þess virði þegar svona er komið.

Gangi þér vel
Reynir Harðarson sálfræðingur S: 562-8565