Meðganga – það lekur vökvi úr brjóstunum á mér, hvað er þetta?

Spurning:

Sæl.

Síðan í 20 viku hefur lekið af og til hvítur vökvi úr brjóstunum á mér, nú
er ég komin 31 viku á leið. Núna undanfarið hefur lekið dökkur gulleitur
vökvi úr brjóstunum. Er þetta alveg eðlilegt?

Með kæru þakklæti.

Svar:

Sæl.

Það sem þú ert að upplifa er byrjandi mjólkurmyndun. Brjóstin eru að undirbúa sig fyrir hlutverk sitt, þ.e. að næra barnið þegar það er fætt. Þessi guli vökvi er kallaður broddur og er mjög næringarríkur og fullur af mótefnum sem verja barnið gegn sýkingum. Fljótlega eftir að barnið fæðist vill það taka brjóst og þá er broddurinn til staðar í brjóstunum og þú fullfær um að næra barnið þitt, sem þarf ekkert annað en mjólkina þína fyrstu mánuði lífsins.

Ég vil ráðleggja þér að lesa um brjóstagjöf á síðum Doktor.is og undirbúa þig vel fyrir brjóstagjöfina svo þér gangi sem best þegar á hólminn er komið.

Gangi þér vel.
Dagný Zoega, ljósmóðir