Meðganga – deyfing og röntgenmyndataka

Spurning:

Sæl Dagný.

Ég er með fyrirspurn varðandi röntgenmyndatökur og deyfingar.
Ég fór til tannlæknis þegar ég var komin tæpar 3 vikur á leið og þá
voru teknar röntgenmyndir. Er það eitthvað sem ég þarf að hafa áhyggjur af? Núna er ég komin 9 vikur á leið og á að fara til tannlæknis aftur eftir viku. Er í lagi fyrir mig að fá deyfingu?

Kveðja,

með þökk fyrir góða síðu.

Svar:

Sæl.

Yfirleitt er röntgengeislun fremur lítil við tannlækningar og því ekki til að hafa verulegar áhyggjur af. Ef tannlæknirinn hefur sett blýmottu yfir kviðinn á þér meðan hann tók myndina ætti allt að vera í lagi. Ræddu þetta samt við ljósmóðurina þína þar sem þú verður í mæðravernd. Hvað varðar deyfingu er talið að þau deyfiefni sem notuð eru við tannlækningar skaði ekki fóstrið. Láttu samt tannlækninn vita að þú sért með barni áður en hann deyfir þig.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir