Spurning:
Mig langar að vita hvort það sé eitthvað sérstakt sem maður þarf að varast í sambandi við dýr á meðgöngu. Ég hef heyrt að það sé ekki í lagi að vera í fjárhúsum meðan á sauðburði stendur, er það rétt?
Svar:
Sæl.
Það eru sem betur fer fáir dýrasjúkdómar sem geta smitað fólk. Sá sjúkdómur sem helst er að varast er Bogfrymilssótt (Toxoplasmosis) en hún getur borist í fólk með illa soðnu kjöti, kattaskít og svo getur sníkillinn leynst í legvatni og fylgjum dýra. Þess vegna þurfa barnshafandi konur að gæta sín vel séu þær við sauðburð. Notaðu hanska, þvoðu vel hendur eftir vinnu og gættu þess að blóð og legvatn, eða óhreinindi úr fjárhúsunum, berist ekki í munn eða augu.
Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir