Meðganga – kynfæravörtur og leikfimi?

Spurning:
Góðan dag.
Ég var að komast að því að ég er ólétt. Ég hef nokkrar spurningar varðandi það sem mig langar að biðja þig að svara. Þannig er mál með vexti að kærastinn minn er með kynfæravörtur sem ekki komu fram fyrr en hálfu ári eftir að við byrjuðum saman, eða fyrir um hálfu ári. Þá fór hann til heimilislæknis, sem greinilega greindi þetta vitlaust og sagði þetta vera fæðingarbletti.  Daginn eftir að ég frétti að ég væri ólétt kom svo í ljós að um vörtur er að ræða. Hvað á ég að gera? Er nýbúin að fara í krabbameinsskoðun, en þá var ekkert sérstaklega leitað eftir vörtum. 
Annað, um síðustu helgi fór ég út að skemmta mér bæði föstudags og laugardagskvöld. Varð ekkert ofurölvi, en mjög vel í glasi annað kvöldið. Hefur þetta haft skaðleg áhrif á fóstrið? Að lokum, er í lagi að stunda leikfimi af krafti fyrstu mánuðina? Ég er búin að vera í mjög skemmtilegri leikfimi í rúman mánuð sem mig langar að halda áfram. Það er samt nokkuð um hopp og kýlingar, er það í lagi? 
Með von um skjót svör

Svar:
Það er mikilvægt að uppræta kynfæravörturnar sem fyrst og best fyrir þig að fá skoðun hjá kvensjúkdómalækni og hann sér síðan um að þið fáið meðferð. Það verður að uppræta þetta áður en þú fæðir. Varðandi áfengisnotkun á meðgöngu þá er ekki að fullu vitað hversu mikið (eða lítið) magn þarf að innbyrða til að skaða fóstrið. Á fyrstu vikunum eru heili og taugakerfi að þroskast og fóstrið því sérstaklega viðkvæmt fyrir eitrunaráhrifum. Leikfimi ætti að vera í lagi fyrir þig að stunda svo lengi sem þér líður vel. Það er þó ekki talið ráðlegt að vera í leikfimi sem krefst mikillar snerpu eða snöggra hreyfinga því liðbönd slakna á meðgöngu og því meiri hætta á tognunum. Þér ætti þó að vera óhætt í nokkrar vikur enn ef þér líður vel í leikfiminni.

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir