Meðganga og flugtímar?

Spurning:
Hæ, hæ.
Mig langaði að spyrja út hvernig það væri þegar kona er ólétt og er að læra flug, er mér óhætt að fljúga og hversu lengi? Svo var ég að pæla í því að fara út í sumar, er það í lagi að fljúga í 4-5 tíma? Ef ég er úti á Spáni, er í lagi að vera lengi í sólinni eða er betra fyrir mig að vera fullklædd úti í sólinni? Langar að vita hvernig þetta hefur áhrif á meðgönguna eða hvort þetta hefur áhrif á hana? Ég veit að þetta eru margar spurningar en mig langar rosalega að vita eitthvað um þetta. Með um von um góð svör.
(kveðja, ólétt en langar til sólarlanda 🙂

Svar:
Sæl og til hamingju með þungunina.
Stutt flug á meðgöngu sérstaklega í byrjun meðgöngu ætti ekki að vera skaðlegt, en ég myndi samt ráðleggja þér að ráðfæra þig við ljósmóðir þína eða lækni í mæðravernd hversu oft eða lengi þú stundar það. Mikilvægt er að vera dugleg að gera fótaæfingar og drekka vel af vatni, einnig er gott að vera í góðum teygjusokkum.
Nú veit ég ekki hver meðgöngulengd þín er nú eða þegar þú ert að hugleiða sólarlandaferð svo ég mun svara þessu dálítið vítt. Áður en þú skipuleggur sólarlandaferð skaltu ráðfæra þig við ljósmóðir þína því hún þekkir best til hvernig meðgangan hefur gengið fyrir sig hjá þér. Flestir eru sammála um að löng ferðalög undir lok meðgöngu séu ekki skynsamleg þar sem þá aukist hættan á fyriburafæðingu. Flug á fyrri hluta meðgöngunnar ætti ekki að vera skaðleg ef meðganga þín hefur verið áfallalaus og heilsa þín góð, en gott er að viðhafa varúðarráðstafanir eins og drekka vel, vera í góðum teygjusokkum til að halda blóðrásinni gangandi og fyribyggja bjúg og ekki síst standa upp annað slagið og ganga um. 
Flugfélögin hafa ákveðnar reglur um flug á meðgöngu og getur þú orðið þér úti um upplýsingar um þær á vefsíðum þeirra.  Í sólarlöndum er gott að passa vel upp á sólarvörnina, barnið er nokkuð vel varið en húðin er viðkvæmari en ella og því extra mikilvægt að nota góða sólarvörn og stilla sólböð í hóf, (gott að vera undir sólhlífinni). Vatnsdrykkja er hér enn mikilvægari því vökvatap er mjög mikið í miklum hita og í söltum sjó en þurrkur getur komið af stað ótímabærum samdráttum.
Þú þarft einnig að vera varkár hvað þú lætur ofan í þig, og sleppa því sem þú ert ekki viss um.
Ég vil í lokin ráðleggja þér að vanda vel til ferðatryggingar og vera viss um að þær nái til meðgöngu ef eitthvað kemur upp á.
Vona að þetta geti orðið að gagni.
Kær kveðja,
Halldóra Karlsdóttir ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur