Meðganga – sársauki við samfarir

Spurning:
Hæ, hæ.
Ég hef verið í föstu sambandi í 4 ár og er komin 33 vikur á leið. Við höfum stundað reglulega kynlíf vandræðalaust þangað til ég varð ólétt. Eftir að ég varð ólétt höfum við ekki stundað kynlíf nema svona 5 sinnum af því að ég fæ sviða og skrítna tilfinningu þarna niðri og það er eins og ég sé með sveppasýkingu eða blöðrubólgu þegar við erum búin að ljúka okkur af en þetta lagast svo á nokkrum klukkutímum. Þar sem ég er ólétt er athugað með sveppasýkingu og blöðrubólgu í hverri mæðraskoðun og það hefur ekki verið neitt. Hvað getur þetta verið? Ég viðurkenni það að ég er orðin ansi leið á að fá ekki neitt sjáf (væri sko til í það á hverjum degi ef þessi sársauki væri ekki), ég veiti manninum mínum fullnægingu með öðrum hætti og hann reynir sitt besta til að fullnægja mér en það er bara ekkert gott svo að ég bið hann um að hætta. Takk fyrir góðann vef. Með von um svar.

Svar:
Heldur er þetta nú leiðinlegt. Hafi læknir tekið strok úr leggöngum og útilokað sýkingu hjá þér, hvort heldur sveppa- eða bakteríusýkingu, og ekki fundið neitt, gæti verið um að ræða hormónaáhrif sem valda þurrki í leggöngunum þannig að núningurinn sem verður við samfarir veldur sviða og verkjum. Við því er fátt að gera annað en nota sleipuefni eins og K-Y gel eða Astroglide við samfarirnar. Ræddu þetta við lækninn þinn í mæðraverndinni þannig að öruggt sé að ekki sé um sýkingu að ræða.

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir