Meðganga: svimi og hár púls

Spurning:

Sæl.

Ég er komin 8 vikur á leið og svimar alveg ægilega mikið, ég er að taka inn vítamín fyrir óléttar konur sem inniheldur 27mg af járni og ég var að velta því fyrir mér hvort að það sé óhætt fyrir mig að taka inn stærri skammt af járni til að athuga hvort að sviminn minnki. Ég er líka með frekar háan púls mældist síðast 130 í slökun en hef oft farið yfir það. Getur þetta þýtt að ég sé svona blóðlítil og hvað er til ráða fyrir mig? Get ég verið að stunda líkamsrækt eða reynt eitthvað á mig með svona háan púls?

Kveðja.

Svar:

Sæl.

Það er ekki óalgengt að konur fái svima í byrjun meðgöngu og þarf það ekki endilega að skýrast af lágu blóðgildi, heldur mikið frekar aðlögun líkamans að þunguninni. Það er ekki talið ráðlegt að taka inn járn aukalega fyrr en eftir 20. viku meðgöngu, nema brýna nauðsyn beri til, vegna hugsanlegra neikvæðra áhrifa á fóstrið. Hár hvíldarpúls getur bent til ýmislegs annars en lágs blóðgildis og því væri gott hjá þér að hitta lækninn þinn til að útiloka orsakir eins og skjaldkirtilssjúkdóm. Bíddu með líkamsræktina þar til þér líður aðeins betur, en það er óvitlaust að fara aðeins út að ganga daglega – það hefur einungis góð áhrif og eins skaltu gæta þess að fá nægan vökva.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir