Meðganga: vil ekki þyngjast of mikið

Spurning:

Ég er allt of þung en hef verið í líkamsrækt undanfarin ár. Mig langar ekki að þyngjast eins mikið og við síðustu meðgöngu. Ég hef verið í RPM hjólatímum tvisvar í viku og Body Pump tvisvar í viku, er allt í lagi að halda því áfram eitthvað fram eftir meðgöngunni? Ég veit að ég á ekki að fara í megrun á meðgöngunni en er ekki í lagi að halda aðeins í við sig svo lengi sem ég borða reglulega og borða hollan mat?

Með bestu kveðju og fyrirfram þökk.

Svar:

Varðandi líkamsræktina þá tel ég að fljótlega gæti þetta prógram orðið of mikið fyrir þig – þú finnur þó sjálf hvernig þér líður og skerð þá niður þá tíma sem þreyta þig meira. Þú getur e.t.v. farið í sund í staðinn – það er ákveðin hvíld í sundi vegna minnkaðra áhrifa þyngdaraflsins. Slepptu því endilega að fara í megrun en borðaðu mikið af grænmeti, ávöxtum, fiski og mögru kjöti, en aðeins minna af brauði og kornmeti. Það væri sniðugt fyrir þig að taka líka fólínsýru og e.t.v. lýsi, þ.e. ef þú ert ekki nú þegar að taka fjölvítamín. Svo þarftu náttúrulega að drekka mikið af hreinu vatni. Þú getur reynt að takmarka þyngdaraukninguna með þessum ráðum en reiknaðu samt með því að þyngjast aðeins – þar spilar líka inn í eðlileg vökvasöfnun líkamans á meðgöngu.

Gangi þér svo vel.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir