Meðgöngueitrun, hvenær skapast hættuástand?

Spurning:

Sæl.

Ég er komin 35. vikur á leið. Ég er með tvo plúsa í eggjahvítu og tvo í bjúg. Blóðþrýstingurinn rokkar frá 130/85 og upp. Ennþá er mér sagt að það sé í lagi, en það er fylgst vel með. Ég spyr: Hvenær skapast hættuástand?

Með fyrirfram þakklæti.

Svar:

Sæl.

Þetta er ákveðið hættuástand og þess vegna er væntanlega vel fylgst með þér með hjartsláttarritun af barninu og tíðum blóðþrýstingsmælingum af þér. Yfirleitt er miðað við að blóðþrýstingur fari ekki yfir 100 í neðri mörkum, en taka þarf tillit til annarra þátta eins og hvernig blóðþrýstingurinn var áður, magn próteins í þvagi og ýmissa efna í blóði sem brenglast við meðgöngueitrun.

Þér hefur væntanlega verið sagt að taka þér frí frá vinnu og vera sem mest í ró. Það eru bestu ráðin og svo er ágætt að borða próteinríkt fæði, eins og fisk, egg og mjólkurvörur, til að bæta þér upp próteinmissinn í þvaginu. Eins skaltu drekka mikið af vatni og forðast sykur, íbætt salt og kaffi.

Fari einkenni versnandi með höfuðverk, litlu og dökku þvagi, flygsum fyrir augum eða verk undir bringspölum skaltu umsvifalaust tala við lækni eða ljósmóður í mæðravernd eða á fæðingadeild.

Haltu svo góðu sambandi við þína ljósmóður og lækninn í mæðraverndinni – þau fylgjast sjálfsagt vel með þér.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir