Spurning:
Sæl.
Hvert á ég að leita? Heimilislæknir sagði mér að leita til geðlæknis.
Mér gengur illa að umgangast fólk. Ég á erfitt með að tjá mig við aðra, nema þá í einrúmi, á erfitt með að muna og endursegja það sem er sagt við mig.
Ég er á Remeron fyrir tilstuðlan heimilislæknis. Mér gekk illa í skóla á sínum tíma og hætti að fylgjast vegna þess að ég trúði að ég gæti ekki lært og væri heimsk eins og sagt er.
Hvað á ég að gera?
Getur geðlæknir eitthvað hjálpað, eða sálfræðingur?
Mér er sagt að sálfræðingar séu svo dýrir, svo að ég hef veigrað mér við að leita til þeirra. Gott væri að fá svar.
Með fyrirfram þökkum.
Svar:
Sæl.
Það fer eftir hverjum og einum hvað hentar manni best og jú sálfræðingar þykja
dýrir. En það er sálfræðiþjónusta við heilsuverndarstöðina á Barónsstíg 47, s:511-1599 en hún er fólki að kostnaðarlausu. Einnig er hægt að leita til Fjölskylduþjónustunnar Lausn sem er á Sólvallagötu 10 sem er líka fyrir einstaklinga og fólki að kostnaðarlausu.
Þar sem þú ert á lyfjum væri æskilegt að þú hittir geðlækni sem myndi fara yfir það. Hægt er að hitta geðlækni á stofu en einnig er hægt að leita til Göngudeildar geðdeildar á Landspítalanum við Hringbraut. Þar er þjónusta frá
8.00-23.00. ekki er hægt að panta tíma en þar er fagfólk t.d. bæði geðlæknar og
geðhjúkrunarfræðingar.
Með kveðju,
Auður Axelsdóttir, iðjuþjálfi Geðhjálp