Mér líður illa og fæ engan stuðning frá mömmu

Spurning:

Komdu sæl.

Ég er 17 ára stelpa og mig langar að fá smá leiðbeiningar. Þannig er mál með vexti að mér finnst ég alltaf hafa fengið svo lítinn stuðning frá mömmu. Við höfum aldrei átt svona stelputal og erum alltaf að rífast. Ég var 12 ára þegar ég byrjaði á blæðingum og brá mjög, mamma hafði aldrei talað um þetta við mig svo ég gekk með klósettpappír á mér í tvo daga, þá loksins þorði ég að segja mömmu þetta. Ég held að ég hafi alltaf verið með frekar lítið sjálfstraust og ég rek það bæði til lítils stuðning frá mömmu og einnig að ég var lögð í smá einelti þegar ég var yngri (það eru reyndar fáir sem vita af því.)

Ég hef aldrei getað treyst mömmu og ég veit að henni finnst ég leiðinleg og ég er alltaf eitthvað fyrir henni.

En núna er þannig komið að þetta hrjáir mig mjög, mér finnst ég endalaust vera að reyna að fá athygli, og ég reyni að vera eins skemmtileg og ég get, en fólki finnst ég bara verða uppáþrengjandi. Ég reyni að hitta fólk eins mikið og ég get. Síðan þegar ég kem heim vil ég bara vera inni í herbergi og græt oftast nær þegar ég leggst upp í rúm.

Ég veit eiginlega ekki af hverju ég er svona, ég fæ flest sem ég vil, foreldrar mínir eru alveg „góðir“ við mig.

Alltaf þegar það er eitthvað að, ef ég finn eitthversstaðar til, segir mamma að þetta sé bara aumingjaskapur og þess vegna tek ég ALDREI inn lyf, hvorki verkjatöflu né neitt. Ég er meira að segja farin að vera eins og mamma þegar vinir mínir eru að taka verkjalyf.

Það sem ég vil eiginlega fá svar við er hvort að það sé eitthvað að mér, ég hef nefnilega tekið þunglyndispróf og þau segja að ég sé mjög þunglynd. En ég fer ekki til lækna og ef ég nauðsynlega þarf, geri ég það á bak mömmu. Ekki segja mér að fara að ræða við heimilislækni, mér finnst það svo ópersónulegt.

Ég held að mig vanti hjálp, sálin er að gefa sig og ég vil helst flýja…

Ég er mjög sterk og ákveðin persóna, en ég er farin að vera mjög uppstökk og fýlugjörn, ég forðast hitt kynið, en hef samt verið í samböndum, og hef þurft að hafa mig alla við. Ég hef hugsað um sálfræðing, en það er svo dýrt og ég gæti ekki sagt mömmu frá því, hún myndi fara að hlæja að mér.

Með fyrir fram þökk fyrir svar.

P.S. ég á veika systir, gæti það haft svona áhrif á mömmu og gæti það verið hún sem þarf hjálp?

Svar:

Komdu sæl.

Það er leitt að heyra að þið mamma þín náið ekki nógu vel saman, ekki kann ég skýringu á því af þeim upplýsingum sem þú gefur. Reyndar talar þú um að eiga veika systur þó ekki fylgi hversu alvarlegt þau veikindi eru.

Stundum er það þannig að ef foreldri hefur miklar áhyggjur af einhverju eins og t.d. veiku barni, eða er kannski í vansælu hjónabandi, kannski sjálft átt erfiða barnæsku eða því um líkt, að þá hefur foreldrið minna aflögu fyrir aðra. Henni þykir samt örugglega vænt um þig þó hún eigi kannski erfitt með að sýna það. Kannski er hún of upptekin af veika barninu, eða henni sjálfri líður ekki nógu vel. Kannski lærði hún í barnæsku að það mætti ekki tala um tilfinnnigar og maður ætti bara að harka af sér. Það er því miður allt of algengt. Við leysum ekki tilfinningalega erfiðleika með því að byrgja þá innra með okkur og láta sem ekkert sé. Þess vegna er gott að þú ert meðvituð um þína líðan og ert reiðubúin að viðurkenna þá, það er fyrsta skrefið til að reyna að taka á erfiðleikunum. Og þú þarft á aðstoð að halda.

Kannski þyrftir þú að vera duglegri við að reyna að tjá þig meira gagnvart móður þinni og segja henni hvernig þér líður. Ég er viss um að ef þú gerir það af einlægni þá reynir hún að hjálpa þér við að finna viðeigandi aðstoð.

Þú talar um að þú hafir aldrei getað treyst henni, að henni finnist þú leiðinleg og að þú sért alltaf eitthvað fyrir henni. Ég myndi hvetja þig til þess að segja henni frá því hvernig þér líður gagnvart henni án þess að ásaka hana og hreinlega spyrja hana hvort þessar hugsanir þínar og tilfinningar gagnvart henni séu réttar.

Varðandi vini þína, reyndu að skoða hvort þetta sé alveg rétt hjá þér að þú sért bara „uppáþrengjandi“, er það alveg rétt? Er kannski ein eða tvær vinkonur sem vilja hafa þig með og sækja eftir félagsskap þínum, finnst kannski gott að ræða við þig o.s.frv. Þó líðan þín sé erfið gefur hún þér engu að síður ákveðin skilning á lífinu sem þú getur deilt með öðrum á gagnlegan hátt. Það er nefnilega oft þannig, að þegar manni líður illa þá hættir manni til að sjá lífið í svart-hvítu og þá fremur neikvæðu hliðarnar og maður sér síður það sem er jákvætt og gott, t.d. í þínu tilviki, að það eru örugglega einhverjir í kring um þig sem finnst gott að vera með þér.
Hugleiddu það.

Kær kveðja og gangi þér vel.
Margrét Bárðardóttir, sálfræðingur