Míanserín og áfengi?

Spurning:
Ég hef um tveggja mánaða skeið tekið Míanserín (30 mgr pr. dag) v. kvíða. Nú er ég á leið í sumarfrí. Spurningin er hvort ég eigi/megi hætta að taka lyfið og láta bjór og vín (hvort tveggja notað í hófi) um ,,slökunina“ í þennan hálfan mánuð eða bara halda mínu striki.

Svar:

Almennt eru þeir sem taka lyfið míanserín varaðir við notkun áfengis. Þessi tvö efni geti aukið sljóvgandi verkun hvors annars. Áfengisneysla getur einnig haft slæm áhrif á kvíða og þunglyndi.
Ég mæli hins vegar eindregið gegn því að hætta töku lyfsins. Bæði er það að áfengisneyslan jafnvel í hófi getur gert kvíðann verri og ákveðin fráhvarfseinkenni við að hætta töku lyfsins geta komið fram.
Eina ráðið sem ég get gefið þér er að halda áfram að taka lyfið og sleppa bjór og víni í fríinu. Ef þú ert ekki sáttur við þetta svar skaltu ræða við lækninn þinn sem þekkir þig og þínar aðstæður betur og getur byggt svar sitt á því.
 
Finnbogi Rútur Hálfdanarson
lyfjafræðingur