Mig langar að fræðast um slitna vöðvaþræði

Spurning:

Sæl.

Mig langar að fræðast aðeins um „slitna vöðvaþræði“.
Ég er mikil íþróttamanneskja og eignaðist barn fyrr á árinu. Þegar sonur minn var 5 mánaða og ég búin að æfa stíft í 3 mánuði þá fór ég að finna fyrir mjög sárum „hlaupastingjum“, verkjum sem lýstu sér eins og hlaupastingur bara 100 sinnum verri. Ég var stöðugt með smá sting sem síðan jókst ef ég gekk eða hljóp. Ég ákvað að leita læknis og hann sagði að þetta væru slitnir vöðvaþræðir í kviði og væri vegna fæðingarinnar, en hún gekk mjög vel. Læknirinn skoðaði mig ekki einu sinni, sagði bara þetta og sagði mér að hætta að ganga og hlaupa. Hvernig er það hægt ég bara spyr? Ég píndi mig bara áfram með þessa ógeðslegu stingi og nú koma þeir bara endrum og eins. Ætti ég að leita til sérfræðinga með þetta eða bara gleyma þessu?

Takk fyrir.

Svar:

Sæl.

Ef grunur er á sliti eða tognun á vöðvaþráðum er best að skoða vöðvann, bæði með þreyfingu og vöðvaprófum. Ef þú ert ekki ennþá orðin góð af þessum verkjum, væri réttast að þú færir aftur til læknis. Ef verkir eru viðvarandi í vöðvanum og aukast við áreynslu gæti jafnvel verið einhver rifa í vöðvanum. Einnig er hugsanlegt að rof hafi komið í kviðvegginn, þ.e. kviðslit en þá aukast verkirnir við áreynslu. Heimilislæknir eða almennur skuðlæknir gætu metið hvort um slíkt sé að ræða og metið hvort aðgerðar sé þörf.

Ef vöðvapróf og þreyfing eru neikvæð, og ekki er um kviðslit er að ræða, þá getur verið spurning um að einkenni koma frá innri líffærum. Er meltingin komin í gott lag eftir fæðinguna? Ef ekki þá þarftu jafnvel að leita til meltingasérfræðings. En endilega hvet ég þig til að leita hjálpar. Ef þú hefur verkina frá vöðvum getur sjúkraþjálfun hjálpað þér.

Kær kveðja og gangi þér vel.
Steinunn Sæmundsdóttir sjúkraþjálfari, Sjúkraþjálfun Styrkur