Mig langar að losna við 10 kíló á 3 mánuðum

Spurning:

Sæl.

Ég er í vanda, mig langar að losna við 10 kíló á 3 mánuðum. Ég er 162 sm, 63 kíló og svolítið stórbeinótt. Ég er úti sem au pair svo að ég get ekki farið á heilsuræktarstöð.

Ég ætla að lýsa virkum degi hjá mér, ég vakna kl. 7 og fæ mér kornfleks, um kl. 9 þarf ég að fara með börnin í pössun og það tekur um 20 mínútur að ganga þangað. Ég geng alltaf rösklega og hjóla svo heim og geri magaæfingar og armbeygjur.

Um kl. 12 fæ ég mér jógurt og kl. 4 fæ ég mér ávöxt eða brauð með áleggi. Kl. 17 þarf ég að sækja börnin og ég hjóla og geng. Kl. 20 er svo kvöldmatur og ég ræð ekki hvað ég borða því konan sem ég er hjá eldar. Ég fæ mér þó bara einu sinni á diskinn.

Ég reyni að drekka mikið vatn um 2 lítra á dag og svo áður en ég fer að sofa reyni ég að gera magaæfingar. Ég hef einn nammidag í viku (laugardaga) og ég reyni alltaf að hreyfa mig um helgar t.d. með því að fara út að ganga og gera magaæfingar.

Mig langar að spyrja þig hvort þetta sé nóg hreyfing eða þarf ég að gera eitthvað meira til að léttast? Er Diet kók hollara og betra en venjulegt Kók? Hvað á maður að borða margar kaloríur á dag? Getur þú líka gefið mér ráð um mataræði á daginn?

Með fyrirfram þökkum.

Svar:

Sæl.

Þú ættir að borða aðeins oftar. Það líður of langt á milli mála frá 07.00 til 12.00. Fáðu þér endilega ávöxt eða eitthvað létt snakk um kl. 9.30. Svo þarftu að borða aðeins meira en eina jógurt í hádeginu, t.d. brauðsneið m. léttu áleggi eða eitthvað álíka.

Gott hjá þér að drekka mikið vatn en láttu gosdrykki að mestu eiga sig. Kók inniheldur fullt af hitaeiningum en Diet kók nánast engar. É,g gef ekki mikið fyrir hollustuna hvort sem það er kók eða diet kók. Það er ágætt fyrir þig að miða við að borða 1500 til 1700 he á dag og reyna að fá eins mikla hreyfingu og þú getur.

Reyndu endilega að ganga og hjóla með það mikilli ákefð að þú mæðist vel. Gott getur líka verið að erfiða mikið í 1 mínútu og ganga í 1 mínútu til skiptis. Hvað varðar mataræðið þá get ég bent þér á að skoða t.d. www.shape.com og www.manneldi.is þar er fullt af góðum upplýsingum.

Gefðu þér tíma til að létta þig, þannig eru meiri líkur á að árangurinn verði varanlegur.

Kveðja,
Ágústa Johnson, Líkamsræktarþjálfari