Mig langar að verða flottari og með skorinn maga

Spurning:

Sæl Ágústa.

Ég er 15 ára stelpa og langar að verða „flottari“. Ég æfi fótbolta 3 x í viku og ætla að fara í aerobic, þ.e. tækin og styrktaræfingar, en það er aðeins 1 x í viku (eini tíminn sem ég kemst). Ég hugsa líka um það sem ég læt ofan í mig, er reyndar ekki að telja hitaeiningarnar eða neitt, borða það sem ég vil en passa bara magnið. Ég er ekkert illa vaxin, er 164 cm og 54 kg. Er það ekki alveg eðlilegt?

Mig langar að fá skorinn maga og verða frekar stælt. En ég á bara svo erfitt með að ákveða hvað ég á að gera nákvæmlega. Þess vegna langar mig að athuga hvort þú gætir gefið mér ráð, bæði varðandi hreyfingu og mataræði. Ég veit hvað ég á að gera í meginatriðum en vantar bara nákvæmari svör en hafa verið gefin við svipuðum spurningum hér á síðunni. Það væri mjög fínt ef hægt væri að gera töflu fyrir mataræðið.

Vona að þú getir svarað mér, með fyrirfram þökkum.

Svar:

Sæl.

Þú ert í fínni þyngd. Haltu áfram að æfa og gættu hófs í mataræði, slepptu helst sætindum og feitmeti. Þú getur fengið allar upplýsingar um hitaeiningar á manneldi.is. Mínar ráðleggingar til þín er að það er ekki raunhæft markmið að skafa svo mikla fitu af þér að þú fáir „skorinn maga“. Leggðu frekar áherslu á að lifa heilbrigðu líferni eins og þú virðist vera að gera og þá þarft þú ekki að hafa áhyggjur að þyngd þinni. Það eru afar fáir sem hafa slíkan líkamsvöxt að vera með mjög lítið fitumagn á kviðsvæðinu og það er afskaplega óæskilegt og óheilbrigt að minnka fituhlutfall líkamans niður fyrir 16-18% og í rauninni engin ástæða til. Vertu bara ánægð með að vera heilbrigð og í fínu formi.

Kveðja,
Ágústa Johnson, líkamsræktarþjálfari.