Mig vantar aðstoð við að hætta að reykja

Spurning:

Ég er fædd 1950 og hef reykt frá því um tvítugt. Ástæða þess að ég byrjaði að reykja var þvermóðska út í mömmu. Síðan þá hef ég ekki getað hætt, þrátt fyrir nokkrar tilraunir. Nú er svo komið að ég verð að velja á milli þess að:

a) reykja og missa íbúðina

b) hætta að reykja og halda íbúðinni. Hjá mér er það engin spurning hvort ég vel. Ég vil halda íbúðinni og hætta að reykja. Mig vantar stuðningsaðila sem ég get skrifað til, þegar illa gengur, og fengið góð ráð.

Mér leið ekkert vel niðri í apóteki áðan. Ég var að sækja lyf við skjaldkirtlinum og hélt að þau væru ókeypis en þegar upp var staðið þá kostuðu þau 447,- kr. Ég var með 300,- kr. á mér (ætlaði í bónus að kaupa mér eitthvað í matinn). Hvað gat ég gert, ég brást bara í grát og mér var lánað fram yfir mánaðarmót. Í dag á ég 2.400,- kr. í banka og næstu mánuðir og ár verða eins nema ég hætti að reykja.

Ég bý ein og er með parkinson-sjúkdóm og er varanlegur 75% öryrki. Mig vantar bara einhvern góðan „vin" til að snúa mér til á meðan ég hætti að reykja.

Kveðja,

Svar:

Komdu sæl.

Já það er engin spurning að komin er tími á þig að hætta reykingum; og skal ég hjálpa þér við það eins og þig hentar.

Fyrst er að ákveð eitthvern dag t.d. 1. apríl eða 16. apríl; svo þú hafir góða aðlögun. Best væri að þú notaðir bæði plástur og tungurótartöflur. En þar sem fjárráðin eru slæm verða tungurótartöflurnar að duga og en þær eru töluvert ódýrari en að reykja. Þú notar þær í hvert skipti sem þig langar að reykja; og þær hjálpa þér með fráhvarfseinkennin. Svona tekur þú einn dag fyrir sig og reiknaðu með að nota töflurnar í allt að 6 mánuði. Þetta er svolíðið erfitt, en þú getur það vel og eftir 3 vikur án þess að hafa tekið einn smók, verður það bara auðvelt. Því þú styrkist með hverjum deginum.
Hafðu samband hvenær sem þú vilt og við finnum ráð.

Gangi þér vel.

Dagmar Jónsdóttir, reykingaráðgjafi