Spurning:
Sæl.
Ég er ein af þeim sem er alltaf að fá bólur. Þrátt fyrir að ég hreinsi húðina vel á hverju kvöldi. Ég tel mig borða hollan mat, eða á það ekki að skipta máli. Mig langar að vita af hverju koma bólur og hvað get ég gert til að losna við þær.
Kærar þakkir.
Svar:
Bólur eru algengur og hvimleiður húðkvilli sem byrjar oft fyrst að gera vart við sig á unglingsárum. Stúlkur byrja yfirleitt fyrr að fá bólur en piltar og eru bólurnar mest áberandi í húð á andliti en geta einnig verið á hálsi, herðum, bringu og jafnvel í nára.
Hvers vegna myndast bólur?
Í húðinni eru þúsundir lítilla hársekkja, þessir hársekkir eru stærstir og í mestu magni í andliti, á hálsi og herðum. Hverjum hársekk tengist fitukirtill sem framleiðir s.k. húðfitu (sebum). Hvers vegna bólur myndast er ekki full skýrt, en karlhormónar (androgen) hvetja framleiðslu á húðfitu, karlar hafa meira af þessu hormóni en konur og því er húð þeirra því oft feitari en húð kvenna, framleiðsla á androgenum eykst á unglingsárum. Erfðir geta einnig haft áhrif. Hjá sumum einstaklingum eru fitukirtlarnir mjög næmir fyrir karlhormónum og því verður fitumyndunin meiri. Það sem gerist þegar bóla myndast er að frumur í hársekknum skila sér ekki út á yfirborðið en loða saman og stífla þannig op hársekksins en það er einnig afrás fyrir fitukirtilinn og myndast þá það sem í daglegu tali er kallað fílapenslar. Dauðar húðfrumur og fita sitja þannig föst í hársekknum og fitukirtillinn sem umlykur hársekkinn fyllist af fitu og getur því bólgnað út. Á húðinni eru við eðlilegar aðstæður ákv. bakteríur sem mynda s.k húðflóru. Þessar bakteríur geta fjölgað sér umfram það sem er eðlilegt í stífluðum hársekkjum. Bakteríur brjóta niður fituna og við það myndast úrgangsefni og fitusýrur sem erta fitukirtlana og bólga myndast. Í fyrstu myndast viðkvæmir rauðir nabbar sem verða síðan að bólum. Ef bólgan verður enn meiri eða ef bólan er kreist getur komið rof í hárekkinn og sýkingin borist inn í aðliggjandi húð og aukið þannig hættu á örmyndun. Margar og stórar bólur geta skilið eftir sig ör sem einstaklingurinn ber alla ævi. Bólur geta haft mikla andlega vanlíðan í för með sér auk félagslegra vandamála. Því er mikilvægt að bregðast skjótt við og fá ráðleggingar um hvernig best er að meðhöndla vandann.
Hverjir fá bólur?
Allir geta fengið bólur. Algengast er að vandamálið byrji á unglingsárum og standi í nokkur ár en í flestum tilfellum gengur þetta yfir fyrir þrítugt, það er þó hinsvegar alls ekki algilt.
Hvað er ekki rétt um bólur?
Bólur eru ekki tilkomnar vegna þess að húðin er ekki þrifinn nógu vel, hinsvegar hjálpar það til við að halda vandamálinu í skefjum að þrífa húðina rétt.
Margir standa í þeirri trú að ákveðnar fæðutegundir geri bólur verri s.s. súkkulaði og feitur matur, það er ekki allskostar rétt en getur samt haft áhrif því mikilvægt er að neyta hollrar fæðu og drekka mikið vatn til að stuðla að heilbrigði húðarinnar.
Nokkur atriði sem haft geta áhrif á húðina: streita og vanlíðan hormónabreytingar, s.s. verður við tíðablæðingar, þungun vinna í raka með fitu, olíu og önnur efni núningur t.d. undan brjóstarhaldara, hjólahjálm ef bólurnar eru kreistar eða fiktað mikið í þeim sumar snyrtivörur ýmis lyf, s.s. sterar og getnaðarvarnartöflur. Hvað er til ráða, hver er meðferðin?
Mikilvægt er að hafa í huga að neyta hollrar fæðu sem inniheldur nægilegt magn af A, C og E vítamíni og drekka mikið vatn á hverjum degi til að stuðla að heilbrigði líkama og húðar. Meðferð við bólum miðar að því að koma í veg fyrir örmyndun og að minnka þá andlegu vanlíðan sem fylgir vandanum.
Væg tilfelli.
Í þeim tilfelllum þar sem vandamálið er á byrjunarstigi getur verið nóg að nota milt andltisvatn eða sápu til að hreinsa burt fitu og óhreinindi. Ekki nudda húðina eða skrúbba harkalega það eykur hættuna á að húðin versni. Gott að nota mildan andlitsskrúbb til að fjarlægja burt dauðar húðfrumur og óhreinindi. Mikilvægt er að þvo hár reglulega með sjampói og varast að það sé í snertingu við andlitið.
Einnig hjálpar að nota andlitskrem sem innihalda benzoyl peroxid en það hefur bakteríudrepandi áhrif og fækkar fílapennslum. Sápur, hreinsivökvar og krem sem innihalda s.k. tea-tree olíu gagnast einnig vel við að halda bólu í skefjum. Oft getur reynst heppilegra fyrir þá sem hafa feita húð að velja snyrtirvörur í gelformi en fyrir þá sem hafa þurra húð í kremformi.
Ekki kroppa eða kreista bólur, það getur skilið eftir sig örmyndun í húðinni. Notið rakakrem, sólarvörn og snyrtivörur sem innihalda raka en ekki fitu til að verja húðina fyrir kulda, hita og sólargeislum. Sólin getur haft góð áhrif á bólur tímabundið, en sólargeislar í of miklu magni valda húðskaða og jafnvel húðkrabbameini.
Hvenær er rétt að leita læknis?
Ef hreinsivörur bera ekki tilætlaðan árangur eftir 6 – 8 vikur.
Ef bólurnar eru stórar og aumar.
Ef bólur eru
farnar að skilja eftir sig ör.
Ef húðin dökknar og bólurnar skilja eftir sig dökka bletti.
Ef vandamálið er farið að valda mikilli vanlíðan.
Erfiðari tilfelli.
Í þeim tilfellum sem meðferðin hér að framan dugar ekki er nauðsynlegt að hafa samband við heimilislækni og fá frekari ráðleggingar. Það fer eftir því á hversu háu stigi kvillinn er hvort heimilislæknir meðhöndlar sjúklinginn eða vísar til húðsjúkdómalæknis. Meðferðin er ýmist áburðir eða töflur og miðar hún að því að minnka fituframleiðslu í húðinni, opna húðina og drepa bakteríurnar. Samfara meðferðinni er mikilvægt að fylgja framangreindum ráðum um daglega umhirðu húðarinnar og mikilvægt er að hafa í huga að áhrifa meðferðarinnar fer yfirleitt ekki að gæta fyrr en eftir 6 – 8 vikur.
1. Staðbundinn meðferð:
Azelaic sýra ( Skinoren) gagnast vel til að meðhöndla bólur, hvernig lyfið virkar nákvæmlega er ekki alveg þekkt en vitað er að það hefur bakteríudrepandi áhrif og hraðar endurnýjun húðarinnar. Kremið er borið á hreina þurra húð einu sinni til tvisvar á dag.
Benzlýl peroxíð (Panoxyl), hefur bakteríudrepandi áhrif og hraðar einnig endurnýjun húðarinnar og eru ýmist notuð einu sinni eða tvisvar á dag. Algengasta aukaverkurnin er erting í húðinni sem oft minnkar með notkun. Benzýl peroxíð aflita klæði og því er mikilvægt fyrir þá sem eru að nota þessi efni að vera meðvitaðir um þessi áhrif og því oft gott að nota þau eftir að búið er að klæða sig á morgnanna og nokkru áður en farið er í rúmið á kvöldinn.
Retinoíðar (retin – A) eru afleiður A-vítamína og hafa kröftur áhrif á bólótta húð. Lyfið eykur frumuskiptingar í húðinni, auðveldar verður að fjarlægja fílapennsla og nýjir myndast síður. Lyfið er borið á þurra hreina húð einu sinni á dag og er best að gera það að kvöldi vegna ertandi áhrif sem sóarljós getur haft þegar húð er meðhöndluð með retinoíðium. Í byrjun meðferðar geta bólurnar þó versnað.
Krem sem innihalda sýklalyf (Klindamycin/Erythromycin) má einungis nota í stuttan tíma, en langvarandi notkun eykur líkur á ónæmi baktería. Kremin eru borin á þurra hreina húð einu sinni til tvisvar á dag.
2. Meðferð í töfluformi:
Ef um er að ræða alvarlegt vandamál getur langtímameðferð með sýklalyfjum hjálpað og er þá ýmist notuð tetrasýklín, doxycyclin eða erythromysin. Mikilvægt er fyrir þá sem fá slika meðferð að vera meðvitaðir um þær aukaverkanir sem geta fylgt ss. erting í húð,blettir á húð og einkenni frá meltingarfærum og mikilvægi þess að taka lyfinn rétt. Þungaðar konur, konur með börn á brjósti og börn yngri en 12 ára eiga þó ekki að fá slíka meðferð.
Þeim konum sem eru slæmar af bólum getur hjálpað að taka ákv. tegund af getnaðarvarnartöflum (Diane mite) en hún inniheldur efni sem virka á móti karlhormónum. Það tekur 2 – 4 mánuði þar til virkni fer að koma fram og áhrif ganga hratt til baka þegar töku lyfsins er hætt.
Þegar mikið er af slæmum stórum bólum á húðinni og ofangreind meðferð ber ekki árangur getur verið nauðsynlegt að nota annars konar meðferð í töfluformi og er þá gefið lyf sem inniheldur isótretínóin (Roaccutan). Það minnkar fituframleiðslu í húðinni og flýtir fyrir endurnýjun húðarinnar Allt að 90% þeirra sem fá meðhöndlun með isótretínóini fá bata á 20 vikum, en eftir þann tíma er gjarnan gert hlé á meðferðinni, hluti sjúklinga versnar þegar töku er hætt og þurfa því lengri tíma meðferð. Þetta lyf er notað af sérfræðingum í húðsjúkdómum, það hefur ýmsar aukaverkanir og þarf að fylgjast náið með sjúklingum meðan á meðferð stendur. Þungaðar konur mega alls ekki nota lyfið, og þær konur sem taka lyfið eiga að vera samhliða á öruggri getnaðarvörn vegna fósturskemmandi áhrifa lyfsins.
Er hægt að fjarlægja ör eftir bólur?
Ef bólur skilja eftir sig ör er hægt að fjarlægja þau td. með leisermeðferð og er hún í höndum húðsjúkdómalækna og lýtalækna.
Gangi þér vel.
Kveðja, Sólveig Dóra Magnúsdóttir, læknir