Mig vantar upplýsingar um Body culture tækin

Spurning:

Sæl Ágústa.

Mig langaði að spyrja þig um þína skoðun á svokölluðum Body culture Bekkjum og Trimform.

Er þetta eitthvað sem á að bera sama árangur og að vera í almennri líkamsræktarstöð?

Svar:

Sæl.

Ég þekki ekki Body culture bekki, nema að þú sért að tala um 6 bekkja kerfið sem virkar þannig að þeir sem nota slíka bekki þurfa ekki að reyna á vöðvana, heldur sjá bekkirnir um að hreyfa líkamann. Mín skoðun á slíkum bekkjum er að þeir gefa engan veginn sama árangur og hefðbundnar líkamsæfingar. Við þurfum að hreyfa okkur, reyna á okkur til að brenna hitaeiningum og þjálfa vöðvana. Trimform var í upphafi hannað fyrir lamað fólk til að fá fram vöðvaspennu í lömuðum vöðvum. Það gefur ekki á nokkurn hátt sama árangur og líkamsrækt. Það er ljóst að til þess að þjálfa vöðvana og auka grunnbrennslu líkamans þurfum við að nota þá með því að hreyfa okkur og gera fjölbreyttar líkamsæfingar. Það er ekki hægt að stytta sér leið.

Kveðja,
Ágústa Johnson, líkamsræktarþjálfari.