Mig vantar upplýsingar um Braxton Hicks samdrætti

Spurning:

Sæl Dagný.
Ég er 26 ára gömul og geng með mitt annað barn. Ég er komin 21 viku á leið og mig langaði að forvitnast um Braxton Hicks samdrættina. Þannig er nefnilega mál með vexti að ég fæ nokkuð marga svona samdrætti dag hvern og það hefur verið þannig frá 19. viku, stundum koma nokkrir sem eru svolítið óþægilegir, ekki beint sárir en ég finn ágætlega fyrir þeim.

Er þetta eitthvað sem ég ætti að hafa áhyggjur af? Í framhaldi af þessu getur ljósmóðirin sem ég er hjá athugað hvort leghálsinn hafi víkkað eitthvað eða sé mýkri?

Með kærri kveðju, ein áhyggjufull.

Svar:

Sæl.

Það er eðlilegt að legið dragi sig saman nokkrum sinnum á dag alla meðgönguna og samdrættirnir verða sterkari og örari eftir því sem líður á meðgönguna. Þannig samdrættir eru verkjalausir og tengjast oft hreyfingu t.d. að standa upp eða velta sér í rúminu eða ef þvagblaðran er full og síðan tæmd eða þegar konan hefur hægðir. Ef þér finnst fylgja þessum samdráttum þrýstingur niður í grind/leggöng eða verkir sem leiða aftur í bak eða niður í læri, láttu þá ljósmóðurina þína í mæðraverndinni vita. Einstaka kona er með viðkvæman legháls sem þolir illa aukna þyngd legsins – sérstaklega á þetta við ef þú hefur farið í keiluskurð eða fætt fyrirbura. Fylgstu a.m.k. með þessu.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir