Mikið djamm á fyrstu vikum meðgöngu

Spurning:
Kæra Dagný
 
Ég er komin 12 vikur á leið á minni fyrstu meðgöngu og er með eitt áhyggjuefni, ég vissi ekki að ég væri ólétt fyrr en eftir 5 vikna meðgöngu, og fyrstu 3 vikurnar var ég búin að djamma soldið mikið þ.e.a.s. hverja helgi (þrjár helgar í röð), e-töflur og spítt.
Hefur það e-h áhrif á fóstrið svona snemma á meðgöngunni? Ég hef ekki tekið sopa síðan ég vissi að ég væri ólétt og er líka hætt að reykja, passa vel uppá mataræðið og tek vítamín.
Ég get ekki talað við lækni strax því ég fæ ekki tíma í skoðun fyrr en ettir 3-4 vikur og þess vegna þætti mér vænt um ef þú sendir mér álit þitt.
Með fyrirfram þökk. – Ein í öngum sínum.
Svar:

Ef talið er frá fyrsta degi síðustu blæðinga frjóvgast eggið í raun ekki fyrr en komið er tvær vikur á leið og næsta vika fer í að færa frjóvgaða eggið niður í leg og festa það þar. Svo byrjar þroski fóstursins fyrir alvöru og þar á meðal heilaþroskinn sem er viðkvæmur fyrir alls konar efnum svo sem áfengi og lyfjum ýmiss konar. En ef þetta voru bara fyrstu 3 vikurnar þá er von til að fóstrið hafi sloppið og hafi neyslan einungis varað í stuttan tíma eru góðir möguleikar á að það hafi ekki beðið neinn skaða. Aðalatriðið er að þú búir vel að því hér eftir og sleppir svona uppátækjum á meðgöngunni og eftir að þú verður móðir.

Gangi þér vel.

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir