Minnka eistun við töku testósterón?

Spurning:

Góðan dag.

Ég hef notað testósterón í lyftingum. Getur þetta lyf haft áhrif á eistun?

Mér og konunni minni finnst að eistun hafi minnkað töluvert. Getur þetta lyf haft neikvæð áhrif á þá sem ekki þurfa á því að halda?

Mér er mikið í mun að fá eitthvað að vita vegna þess að ég hef áhyggjur af þessu.

Skiptir stærðin á eistunum máli upp á getu- eða getuleysi?

Þarf ég að leita til læknis? Ég vil taka það fram að ég hef enga verki eða neitt slíkt.

Í góðri trú um gott svar og með fyrirfram þökk.

Svar:

Notkun íþróttafólks á vefaukandi sterum hófst um 1940. Markmiðið með notkun stera er að bæta árangur í íþróttum og/eða vaxtarrækt. Ef skoðaðar eru rannsóknir sem eru þokkalega vel eða vel gerðar kemur í ljós að í sumum þeirra virðist steranotkun bæta árangur íþróttafólks en í öðrum ekki. Þannig að ávinningur íþróttafólks er óviss en áhættan er alltaf til staðar.

Ekki er algengt að testósterón sé notað heldur eru venjulega notuð ýmis afbrigði þess eins og t.d. stanozólól (efnið sem kostaði Ben Johnson ólympíutitilinn árið 1988), nandrolone, oxymetholone og fleiri. Virkni efna er mjög mismunandi og því mjög misjafnir skammtar sem eru teknir. Notkun á testósteróni til að auka árangur í íþróttum er venjulega í töluvert stærri skömmtum en þegar lyfið er notað til lækninga. Til viðmiðunar get ég bent á það að Testoviron Depot (inniheldur testósterón) er gefið í vöðva á 2ja –6 vikna fresti, 250 mg gefin í hvert skipti.

Fyrir þá sem vilja lesa um þær hættur sem fylgt geta steranotkun íþróttafólks bendi ég á bók eftir Robert Goldman sem heitir “Death in the Locker Room”.

Aukaverkanir eru t.d.:

Bæði kyn: Hlutfall kólesteróls í blóðinu breytist (“holla” HDL-kólesterólið minnkar og “óholla” LDL-kólesterólið eykst) sem eykur líkurnar á hjarta- og æðasjúkdómum (t.d. hjartaáfalli). Breyting á skapi, árásarhneigð og andfélagsleg hegðun. Óeðlileg lifrarstarfsemi. Karlmenn: Vöntun á lifandi sáðfrumum í sæði (geldsæði) eða sæðisfrumnabrestur og visnun á eistum. Ófrjósemi. Stækkun á blöðruhálskirtli. Brjóstastækkun Konur: Snípstækkun, Skeggvöxtur, Skalli, Dimm rödd, Brjóstaminnkun. Að framan er þess getið að vefaukandi sterar auki ekki endilega árangur íþróttafólks, t.d. í hlaupi og fótbolta. Það á ekki við um vaxtarækt því að vöðvamassinn eykst vissulega. Varðandi spurningu þína um eistun og stærð þeirra þá er mjög líklegt að þau hafi minnkað vegna steranotkunar jafnframt er líklegt að sæðisfrumurnar séu orðnar færri og slappari. En athugaðu það að sterarnir hafa ekki neikvæð áhrif á kynlöngun, hún getur jafnvel aukist til muna.

Ef þú ákveður að hætta notkun stera þá ráðlegg ég þér að gera það rólega, þ.e.a.s. að minnka skammtinn smám saman. T.d. væri hægt að helminga skammtinn á viku fresti í 1 – 2 mánuði (fer eftir þeim skammti sem verið er að taka). Ef hætt er skyndilega er hætta á fráhvarfseinkennum t.d. þunglyndi. Gott er að fara til læknis og láta hann skoða hvort einhver skaði sé skeður (sem er vonandi ekki) og ræða við hann um framhaldið.

Kær kveðja,
Jón Pétur Einarsson, lyfjafræðingur