Minnkandi kynlífsáhugi hugsanlega vegna lyfja?

Spurning:
Ég á í miklum vanda í sambandi við kynlíf. Ég er í sambúð með manni sem að ég er mjög ástfangin af en áhugi minn á kynlífi fer sífellt minkandi. Maðurinn minn er sjómaður og er því ekki mikið heima en sambandið hefur gengið vel þrátt fyrir það. Við höfum verið saman í um 2 ár og áhugi minn á kynlífi hefur alltaf verið mjög mikill þar til fyrir um þremur mánuðum síðan, þá fór hann bara sífellt minkandi og ég fór alltaf að reyna að koma með einhverjar afsakanir fyrir því af hverju ég vildi ekki sofa hjá manninum mínum.
Mér líður ekki vel að hafa þetta svona og að sjálfsögðu er maðurinn minn ekki ánægður. Ég er þunglyndissjúklingur en ég tel mig hafa náð nokkuð góðum tökum á sjúkdómnum með hjálp lyfja. Í byrjun árs byrjaði ég á lyfjunum Efexor og hafa þau reynst mér mjög vel. Ég hef verið að lesa mér til um það hvernig þunglyndi getur haft áhrif á áhuga á kynlíf og komst ég þá að því að SSRI lyf geti haft áhuga á skort á kynlífslöngun en ég fann ekkert nánar um þessi SSRI lyf og hef því ekki fundið það út hvort að þau lyf sem að ég er á flokkist undir þessi lyf.
Það sem ég vil vita er hvort að Efexor flokkist undir þessi lyf og hvort að það geti verið ástæðan fyrir vandamáli mínu og hvað ég geti þá gert til að laga þetta. Sé þetta ekki ástæðan veitti mér líka ekkert af því að fá einhverjar ábendingar um það hvað er hægt að gera til að ýta undir áhuga í kynlífi. Ég og maðurinn minn höfum einnig nýlega farið að ræða barneignir en erum eins og örugglega flest allir mjög hrædd um að eignast ekki full heilbrigt barn og vorum því að velta fyrir okkur hvort að það væru til einhverskonar rannsóknir til að vita hvort að það sé mikið hætta á því að við eignumst óheilbrigt barn? Með fyrirfram þökk, ungfrú áhugalaus.

Svar:

Venlafaxin, virka efnið í Efexor og Efexor Depot er ekki svokallaður sérhæfður serótónín endurupptökuhemill (SSRI). Það hamlar þó endurupptöku serótóníns eins og SSRI lyfin en hamlar þar fyrir utan einnig endurupptöku noradrenalíns og jafnvel dópamíns einnig. Flest það sem á við um SSRI lyf á því einnig að nokkru leyti einnig um venlafaxín.
Það á við venlafaxín eins og flest eða öll önnur þunglyndislyf að það getur haft neikvæð áhrif á kynhvöt.
Takmörkuð reynsla er til af því að gefa vanfærum konum venlafaxín. Því er ráðið frá því að taka lyfið á meðgöngutíma nema að vel athuguðu máli. Þetta á reyndar einnig við um önnur þunglyndislyf. Þetta þýðir þó ekki að þekkt séu dæmi um óæskileg áhrif á fóstur. Þú skalt því ræða við lækninn þinn um þetta áður en þú hyggur á þungun.
Engin ástæða er til að ætla að sjúkdómur þinn eða lyfjataka sem hætt er fyrir þungun hafi nein áhrif á heilsu eða þroska barnsins.
 

Finnbogi Rútur Hálfdanarson
lyfjafræðingur